149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á tilvitnun úr ríkisstjórnarsáttmálanum: „Svigrúm er á næstu árum til að nýta eignatekjur ríkisins í slík verkefni“, en þá er átt við samgöngur, fjarskipti, veitukerfi og ýmiss konar mannvirkjagerð. Það var boðuð ákveðin stórsókn í samgöngum í upphafi kjörtímabils og þegar maður heyrir orðið stórsókn þá býst maður kannski við því að í samanburði við önnur ár þá sé sett meira í hlutina.

Í umsögn Samtaka iðnaðarins m.a. og annarra sem voru með sameiginlega umsögn til umhverfis- og samgöngunefndar um samgönguáætlun kom fram að framlög til samgöngumála 2019 væru vel undir meðaltali sl. 20 ára, 0,54% en ekki 0,7% eins og meðaltalið var á þeim árum þrátt fyrir hrunárin. Þegar maður hugsar um stórsókn í því tilliti þá hlýtur maður að byrja alla vega á meðaltalinu og bæta síðan við það. Þegar ég sé það sem er sett fram í stjórnarsáttmálanum, að það eigi að fara í stórsókn, þá skil ég það svo að við byrjum í meðaltalinu og stórsóknin er síðan umfram það, drifin áfram af eignatekjum. Eins og hv. þm. Vilhjálmur Árnason kom á framfæri áðan í andsvari við hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, þá eru tekjur oft margtaldar en ég sé ekki betur en að eignatekjurnar séu einmitt líka dálítið margtaldar. Mig langar að fara yfir nokkur atriði hvað það varðar.

Í fjármálaáætlun 2016 er gert ráð fyrir 20 milljörðum í arðgreiðslur á hverju ári, 2019, 2020 og 2021. Í fjármálaáætlun 2019, um þremur árum seinna, þá eru arðgreiðslur hins vegar komnar í 33 milljarða eða svo á ári. Ég geri mér að svigrúmið sé u.þ.b. þetta sem er vegna eignatekja, þessir 10–13 milljarðar, sem verða notaðir í ýmiss konar viðfangsefni. Það fóru 5,5 milljarðar í þessa samgönguáætlun en þeir duga samt ekki til að ná upp fyrir meðaltalið sem talað var um í umsögn Samtaka iðnaðarins. Ég tel þetta til.

Það liggur fyrir þinginu frumvarp um þjóðarsjóð og þar er gert ráð fyrir um 10–20 milljörðum á ári í nýjar eignatekjur sem verði notaðar í þjóðarsjóðinn og til bráðabirgða er gert ráð fyrir að lágmarki 10 milljörðum þangað. Það er af eignatekjum líka sem gert er ráð fyrir. Eitthvað minnka þær þá á móti.

Ekki nóg með það heldur segir í fjármálaáætlun 2019, á bls. 52, með leyfi forseta:

„Heildarskuldir ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu verði a.m.k. komnar undir 25% af VLF í árslok 2019 …“

Síðan segir að óreglulegt fjárstreymi vegna félaga í ríkiseigu verði nýtt til niðurgreiðslu skulda. Þar er talað um að til falli tæplega 120 milljarðar á árunum 2018, 2019, 2020 og 2021, á fjögurra ára tímabili, sem er u.þ.b. 30 milljarðar á ári.

Það eru þá 30 milljarðar þar, 10 milljarðar í þjóðarsjóð, arðgreiðslurnar eru áætlaðar um 30 milljarðar, en þá er ég kominn með meira af óreglulegu tekjustreymi en gert er ráð fyrir. Ég velti því fyrir mér: Á að nota svigrúm vegna eignatekna til stórsóknar í samgöngumálum eða á að nota það í þjóðarsjóð eða á að nota það í niðurgreiðslu skulda?

Þegar ég tek saman þessar tölur þá eru eignatekjurnar nokkurn veginn horfnar í þessa hluti og vel umfram það. Ég átta mig ekki alveg á því hvernig þetta á að summast upp og ég kallaði einmitt eftir skýringum á þessum margtöldu eignatekjum.

Það hefur verið fjallað hér um ýmislegt og aðalmálið í umræðunni var það atvik í byrjun desember á síðasta ári þar sem meiri hlutinn kom í nefndaráliti með þau tilmæli til ráðherra að útfæra fjármögnun aukinna samgönguframkvæmda með veggjöldum. Síðan þá hefur afstaða til veggjalda verið könnuð í skoðanakönnunum og þar eru rúmur meiri hluti, 54% rúmlega, mjög eða frekar andvígur, 32% eru frekar hlynnt eða mjög hlynnt og svo kemur það hlutfall sem veit ekki eða vill ekki svara. Til viðbótar við þetta þá bárust 1.466 umsagnir sem tóku tillit til áforma meiri hlutans um veggjöld, ekki almennt um veggjöld heldur áforma meiri hlutans sérstaklega, útfærslu hans á veggjöldum sem er að loka höfuðborgarsvæðinu með veggjöldum; Selfoss, Reykjanesbær og Borgarnes, nokkur gjaldahlið. Eins og kom fram í máli hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar áðan þá er kannski lítill kostnaður við hvert hlið en safnast þegar saman kemur og ef maður fer alla leiðina þá er maður búinn að borga kannski fimm sinnum á leiðinni frá Reykjanesbæ og í bæinn, nokkra túskildinga í hvert skipti. Það er því erfitt að horfa bara á eitt gjald í þessari útfærslu, það verður líka að horfa á heildarmyndina og summa upp liðina. Umsagnirnar sem bárust voru þetta margar, 1.466 minnir mig, og 1.406 voru á móti og andmæltu þessum áformum meiri hlutans, á meðan 60 voru með. Þannig að 95% þeirra sem sendu umsögn sögðu nei, einfalt og þvert nei.

Ég hef spurt fólk áður í umræðunni: Hvaða mark er hægt að taka á þessu? Jú, það eru nokkrar leiðir fyrir fólk til að hafa áhrif á störf Alþingis. Að sjálfsögðu í kosningum, með atkvæði sínu, og svo umsögnum, formlegum umsögnum um mál í vinnslu nefnda. Það voru næstum því 1.500 manns sem nýttu sér þetta tækifæri að koma fram undir nafni, sem er miklu meira en skoðanakönnun gerir, og láta skoðanir sínar í ljós fyrir vinnu nefndarinnar. Vissulega er úrtakið kannski eitthvað hlutdrægt, þeir sem eru á móti eru greinilega, miðað við skoðanakannanir, líklegri til þess að láta skoðun sína í ljós sem lýsir kannski mun meiri skoðanahita þeirra aðila. Óháð því þá verðum við samt að taka tillit til umsagnanna, þær þýða eitthvað. Þetta eru skoðanir fólks sem lætur okkur þær í té, kjörnum fulltrúum, til að taka ákveðna samviskuákvörðun um það hvernig eigi að fara með þessi mál á þingi. Þegar 95% þeirra sem senda umsögn segja nei þá hljótum við að þurfa að stoppa aðeins og endurhugsa málin. Það hlýtur að vera.

Í umræðunni hefur oft verið talað um annars vegar almenn veggjöld og hins vegar sértæk veggjöld til að fjármagna þær framkvæmdir sem liggja undir í áliti meiri hlutans. Það kemur skýrt og greinilega fram þar að þau veggjöld fjármagna í raun og veru fleiri framkvæmdir en liggja þar undir því fjármagnið færist úr þeim sem á að flýta yfir í aðrar framkvæmdir. Í staðinn fyrir að veggjöldin bætist við það framkvæmdafé sem þegar er búið að áætla, og þar af leiðandi gæti veggjaldið verið lægra eða framkvæmd greidd upp á styttri tíma, þá þarf að fjármagna allar þær framkvæmdir og hliðra fjármagninu til annarra framkvæmda einhvers staðar, m.a. Arnarnesveg eins og er talað um í nefndarálitinu. Það þýðir í rauninni að veggjöldin borga fleiri framkvæmdir en bara þær sem liggja þarna undir. Annars fengju þær það samgöngufé sem þeim er skammtað, það myndi ekki vera tekið til hliðar til viðbótar við veggjöldin.

Þetta er, eins og hefur oft verið talað um, dálítið öðruvísi en þau dæmi sem við höfum um veggjöld í Hvalfjarðargöngum og Vaðlaheiðargöngum og kannski á Reykjanesbrautinni í gamla daga til ákveðinnar uppbyggingar þar. Fólk fór venjulega Hvalfjarðargöngin, hafði möguleika á að fara styttri leið með því að greiða veggjöld. Með áætluðu fyrirkomulagi keyrir fólk núna venjulega Reykjanesbrautina en hefur möguleika á að fara lengri leið til þess að sleppa við veggjöldin. Þá fer það ekki lengur venjulegu leiðina. Hún verður allt í einu núna með veggjöldum. Það er verið að bæta við kostnaði fyrir fólk sem fer sömu leið og það hefur alltaf farið. Að mínu mati er augljóslega hægt að kalla þetta skattheimtu. Þetta eru ekki notkunargjöld, alls ekki. Reykjanesbrautin t.d., Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur eru stofnæðar sem eru algjörlega nauðsynlegar og er ekki hægt að undanskilja sem einhverjar styttingar eða þjónustuviðbætur eða eitthvað svoleiðis. Umsagnaraðilar frá t.d. Suðurnesjum töluðu um að viðbót við það sem teldist nauðsynlegt gæti verið flokkuð sem einhver aukagæði sem væri þá hægt að rukka veggjöld fyrir, en þá bara þann hluta sem væri umfram nauðsyn. Ef lagt væri til að gera 2+1 veg en Alþingi myndi stækka þá framkvæmd upp í 2+2, þá er mismunurinn veggjaldahluti, þar sem væri enn meira öryggi.

Við sjáum að í samgönguáætlun eins og hún er, óbreyttri, er þeim framkvæmdum sem allir segja að séu algjörlega lífsnauðsynlegar raðað aftast. Samt eru þær lífsnauðsynlegar. Okkur er sagt: Gjörðu svo vel, þið fáið lífsnauðsynlegar framkvæmdir með því að borga fyrir þær. Þið fáið þær bara ef það eru veggjöld. Það eru ekki nein önnur fjármagnsúrræði. Við fáum ekki að velja um neitt annað. Það finnst mér ekki vera mjög góð vinnubrögð.

Mig langar að fara stuttlega í umhverfismálin eins og aðrir hafa gert hérna. Það er til skýrsla sem heitir Milljón tonn – Sviðsmynd til 2030, frá október 2017 þar sem er talað um að við þurfum að ná um 500.000 tonnum af koltvísýringi frá samgöngum. Aðgerðaáætlun þar miðar við að það þurfi um 100.000 útblásturslausa bíla í flotann árið 2030, en nýskráningar fólksbíla er á bilinu 10.000–20.000 á ári eða voru það árið 2017, hefur væntanlega fjölgað eitthvað, en það eru einungis um 2.000 hreinir rafbílar. Það þyrfti sem sagt að vera þannig til að ná þessu markmiði að jafnvel allir seldir bílar á þessu tímabili til 2030 væru rafbílar, hreinir rafbílar.

Á þeim nótum þarf að sjálfsögðu að tala um almenn gjöld, ekki endilega veggjöld, kannski þungaskatt eða rafbílaskatt eða eitthvað svoleiðis eða kílómetragjald eins og það var, sem kæmi í staðinn fyrir eldsneytisgjaldið. Það er algerlega til hliðar við tillögur meiri hlutans og ráðherra um veggjöld fyrir sértækar aðgerðir, eins og er sagt, en þær eru ekki mjög sértækar. Þær ná yfir fleiri framkvæmdir líka. Það er erfitt að skilja þarna á milli. Eins og komið hefur fram hérna voru umsagnaraðilar pínulítið ruglaðir yfir því hvort það væri verið að tala um almenn veggjöld eða sértæk veggjöld. Þetta er í rauninni hvorugt. Þetta eru að hluta til almenn veggjöld því þau ná yfir fleiri framkvæmdir en rukkaðir eru vegtollar fyrir, en eru ekki sértæk einmitt af sömu ástæðum.

Við búum nefnilega við ákveðið vandamál eftir hrun bankanna, og ég hef komið að þessu í öðrum ræðum, sem ég hef kallað innviðaskuld. Það er búið að greiða að mestu leyti upp peningalega skuld sem varð til við yfirtöku á bankakerfinu með bankaskatti og uppgjöri þrotabúa og ýmsu slíku. En við stöndum uppi með innviðaskuldina. Hver á að borga innviðaskuldina? Það er fólkið hérna úti með vegtollum. Það er einfaldlega þannig. Það eru þær framkvæmdir sem hér eru taldar veggjaldaverðar, að þær beri veggjöld eða eitthvað því um líkt. Af hverju er ekki hægt að setja veggjöld út um allt? Þó að þau muni ekki borga upp vegi annars staðar þá væru þeir að hluta til fjármagnaðir með veggjöldum, t.d. veggjaldalánum, 20% eða eitthvað svoleiðis, á sama verði og væri á höfuðborgarsvæðinu. Það væri jafnræði eins og talað er um í áliti meiri hluta nefndarinnar. Tillagan sem er núna sett fram felur ekki í sér jafnræði. Það væri jafnræði ef öllum leiðum inn og út á Akureyri, Egilsstöðum, Hornafirði, Ísafirði og fleiri stöðum yrði lokað með veggjöldum á sama hátt og á höfuðborgarsvæðinu. Það væri jafnræði. Það sem er stungið upp á í áliti meiri hlutans er ekki jafnræði þó að sagt sé að það sé jafnræði.

Eitt í viðbót a.m.k. Við fengum skýrslu í fjárlaganefnd sem var líka vísað til umhverfis- og samgöngunefndar varðandi viðhald á vegum. Í þeirri skýrslu kemur fram, með leyfi forseta:

„Almennt talað eru það nánast eingöngu þyngstu bílarnir sem valda niðurbroti veganna með tíma. Að vísu slíta fólksbílar efsta lagi slitlags vegna nagladekkjanotkunar.“

Viðhaldskostnaðurinn sem hefur vaxið mjög mikið í samgönguáætlun er því eingöngu þyngstu bílunum að kenna en ekki eru þeir að borga sína hlutdeild. Það varðar einmitt veggjöldin og vegtollana og svo eru náttúrlega allir að borga þetta í eldsneytisgjaldinu o.s.frv. Ef bílarnir væru ekki nema einu tonni léttari — jú, það myndi valda ákveðnum flutningskostnaði en það væri jafnvel ódýrara að styrkja einfaldlega á móti það flutningstap, fyrir fleiri ferðir eða eitthvað svoleiðis. Það myndi minnka álagið á vegina um a.m.k. helming. Ef tekið væri frá sérstakt tímabil, t.d. þegar það eru leysingar og settar enn meiri þyngdartakmarkanir, eins og ég held að sé að vísu gert en það væri kannski hægt að framfylgja því betur, þá væri hægt að minnka viðhaldskostnað enn meira. Hann telur rosalega mikið í þessari samgönguáætlun og þá er hægt að fara í mun fleiri nýframkvæmdir, t.d. þær sem lagt er til að séu fjármagnaðar með veggjöldum.

Ég velti aftur fyrir mér, eins og ég gerði í andsvörum áðan við hv. þm. Líneik Önnu Sævarsdóttur: Af hverju þarf þessa heimild til veggjalda í áliti meiri hlutans? Er ekki nóg að beina til ráðherra að Alþingi vilji forgangsraða þessum framkvæmdum, sem eru taldar upp, mun framar í samgönguáætlun og samgönguráðherra gert að koma með tillögur um mögulegar úrlausnir eða fjármögnun á því í fjármálaáætlun eins og gengur og gerist?

Nei, meiri hlutinn tiltekur það sérstaklega að það verður að gera þetta með veggjöldum og ekki bara veggjöldum heldur veggjöldum inn og út úr Reykjavík, á stórhöfuðborgarsvæðinu. Þannig á að fjármagna það, ekki á neinn annan hátt. Ekki með því einmitt að minnka álag á vegi, ekki með því að reikna með þeim samfélagslega sparnaði sem við græðum með minni slysatíðni. Ekki með því að reikna það inn. Nei, við fáum þann sparnað og við þurfum líka að borga veggjöld.

Það er svo margt annað sem hægt er að gera með þessar framkvæmdir en að rukka veggjöld. Niðurstaðan getur ekki verið önnur en sú að þetta sé bara einfaldlega aukin skattheimta fyrir stórhöfuðborgarsvæðið á suðvesturhorninu.