149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í óundirbúnum fyrirspurnum í gær vakti ég einmitt athygli hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á hringlandahætti í stefnu stjórnvalda hvað þetta varðar. Til að byrja með á ekki að fara í veggjöld, það var búið að taka það út af borðinu. Það á samt að fara í stórsókn, sem er síðan ekki stórsókn af því að hún er undir meðaltali á þessari öld. Svo allt í einu eru veggjöld komin upp, bara rétt áður en á að afgreiða samgönguáætlun. Það er, samkvæmt grunngildum í lögum um opinber fjármál, ekki merki um festu eða stöðugleika, hvað þá fyrirsjáanleika, ef þetta er að detta í kjöltuna á okkur allt í einu.

Ég get þó kannski glatt hv. þingmann með því að í skýrslu sem kom um veggjaldaáætlunina 2017, minnir mig að hafi verið — Sundabrautin var inni í þeim framkvæmdum, það var í kringum 90 milljarðar eða eitthvað því um líkt — var gert ráð fyrir tæpum 5 milljörðum í tekjur af veggjöldum. Miðað við tæpa 60 milljarða núna þá er þetta væntanlega 2/3 af því, þannig að það yrði aðeins minna sem þyrfti að kosta af veggjöldunum á hverju ári. Þá erum við komin í 3 til 4% eða eitthvað því um líkt, 5%. Jú, það telur. En eins og ég sagði áðan vitum við ekki hvað það telur mikið. Ég hefði haldið að í þessu ferli, þar sem sett er stefna, markmið og því um líkt, ættum við að vera að detta í þann hring. Þessi tilmæli meiri hluta nefndarinnar, að vísa þessu til ráðherra á þennan hátt, ríma að einhverju leyti (Forseti hringir.) inn í þennan hring, þannig að í fjármálaáætlun nú í vor kæmi væntanlega betri útfærsla á því sem er (Forseti hringir.) þá jákvætt. En við erum dálítið í limbói akkúrat eins og er.