149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[20:21]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að tala um það hér að eignatekjurnar, með því að selja eignir eða fá arðgreiðslur og annað slíkt, eru mjög fjölbreyttar. Við erum með gríðarlega háa eignarhluti í bönkunum. Við erum með eignarhluti í Isavia. Við erum að fá arðgreiðslur af auðlindunum okkar og annað slíkt. Það á eftir að ráðstafa þessu þannig að við getum sagt: Hluti af þessu á að fara í innviði, annað að fara í að greiða niður skuldir og með því að greiða niður skuldir spörum við vaxtakostnað sem er þá aftur hægt að nota í innviði eða setja í eitthvað af þessu.

Við erum að benda á að það er ástæðan fyrir því að við erum að leggja veggjöldin til. Veggjöldin eru sértæk gjöld sem fara beint í að byggja upp vegakerfi, ekki neitt annað. Þau þurfa ekki að fara í gegnum þessa umræðu. Og eignatekjurnar eiga eftir að fara í gegnum töluverðar umræður hér á Alþingi og ég tel að við höfum ekki tíma til að bíða eftir því. Veggjöldin eru þá skásti kosturinn af því að hann kemur fyrst til framkvæmda. Það er auðveldast að stýra þeim fjármunum beint í vegaframkvæmdir frekar en að fara að ræða í hvað við eigum að forgangsraða fjármununum.