149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get glatt hv. þingmann með því að ég missti nú aldeilis ekki af þessari loftslagsumræðu fyrr í dag vegna þess að hér eru nefnilega staðsett sjónvörp víða í húsinu svo hægt er að fylgjast með. Maður getur meðtekið ýmsan fróðleik og annað sem manni finnst kannski síður merkilegt.

Ég hélt að við hv. þingmaður værum almennt þeirrar skoðunar að skattkerfi okkar væri í rauninni til að afla nauðsynlegra tekna til að standa undir þjónustu en líka mjög mikilvægt tæki til jöfnunar. Þá hefði mér þótt nærtækara að leggja álögur á þá sem virkilega geta borið þær og hlífa hinum sem ekki geta það. Það er auðvitað hægt að gera líka í almenna skattkerfinu. Það væri t.d. hægt að taka undir með ASÍ og skoða fjögur þrep. Það væri kannski hægt að leggja á hærri veiðigjöld, um nokkra milljarða. Það væri kannski tímabundið hægt að fresta því að fella niður bankaskatt.