149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[22:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er rétt. Ferðaþjónustan mun væntanlega skila einhverjum peningum þarna inn og reyndar gerir hún það núna og hún mun líka gera það af veggjöldum.

Varðandi bankaskattinn kannski sérstaklega. Auðvitað er það alltaf spurning hvenær á að ákveða að byrja að lækka bankaskattinn. Það geta verið alls konar sjónarmið í því. Eitt sjónarmiðið er að með því að — eða vonandi gerist það með lækkun bankaskattsins, að vextir almennt í landinu lækki. Við skulum gera ráð fyrir því að neytendur muni njóta þess í einhverju. Það getur skipt verulegu máli fyrir alla landsmenn, líka þá sem borga veggjöld. Það eru mjög margir fletir á því. Ég held að við verðum að finna leið til að halda áfram að fjármagna vegakerfið. Það hefur alla vega enginn í þessari umræðu bent á einhverja betri.