149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[23:02]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni andsvarið. Hann kvartaði í upphafi andsvars síns yfir því að Vinstri græn hefðu fallið hratt frá sannfæringu sinni í málinu. Ég hef fyrir mitt leyti velt því fyrir mér í mörg ár hvernig væri hægt að halda áfram að fjármagna vegakerfið. Eftir mjög ítarlega umræðu í haust hef ég komist að þeirri niðurstöðu, og raunar fleiri af félögum mínum, að þetta sé sú leið sem sé minnst breyting frá því kerfi sem við erum með í dag, þ.e. að falla frá olíugjaldinu, af því að við viljum það, og detta þá yfir í veggjald.

Þingmaðurinn spurði hverjir myndu borga mest. Í dag er það þannig að þeir sem keyra mest borga mest, að öðru óbreyttu. Það heldur áfram að vera þannig. Þeir sem keyra mest halda áfram að borga mest. Ég get alveg séð fyrir mér að við gætum að einhverju leyti farið sambærilega leið og Norðmenn hafa gert en þeir hafa lægri veggjöld á umhverfisvænni bílum og voru a.m.k. um tíma með lægri veggjöld á bílum sem notuðu minni kolefnisorkugjafa. Ég væri algerlega til í að skoða slíkar leiðir í umhverfisvænum tilgangi.