149. löggjafarþing — 62. fundur,  5. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[23:42]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir þetta andsvar. Við erum alveg sammála um það að við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum. Það eru breytingar. Þeir tekjustofnar sem við höfum núna eru að dragast saman. Við erum líka með áform um breytingar á öðrum sviðum í sambandi við orkuskiptin og breyttar áherslur í þeim efnum þannig að þetta er bara sameiginlegt verkefni okkar allra núna. Ég tel mikilvægt að við skoðum þessar leiðir áfram, að við finnum réttláta leið sem við getum flest tekið þátt í að fjármagna. Auðvitað verður það þannig að þeir sem aka mest, þeir borga mest. Þannig er það í dag. Það verður alltaf þannig. Allt tal um að gjöldin séu bara hér í kringum Reykjavík; þetta er leiðin sem við öll þurfum að fara einhvern tímann. Allir sem búa úti á landi þurfa að koma til Reykjavíkur til að sækja sér þjónustu og þeir þurfa að fara þessar leiðir líka.

Ég treysti og vil trúa því að við finnum út úr þessu eitthvað sem við getum sæst á. Þetta hlýtur alltaf að vera í þróun en það sem er jákvætt núna er að þessi samgönguáætlun sem við erum með til umfjöllunar núna og liggur fyrir þinginu er fjármögnuð. Það er staður sem er svo gott að vera á, við höfum ekki komist þangað áður. Allt tal um að hér sé eitthvað minna en var í einhverjum öðrum samgönguáætlunum — við skulum hafa það í huga að það voru áætlanir sem aldrei urðu að veruleika. Nú erum við með raunhæft plagg sem við getum farið eftir og við skulum fara í það. Við skulum framkvæma það, koma okkur af stað og áfram með það. Á meðan finnum við aðrar leiðir, ræðum okkur til niðurstöðu í því og byggjum upp almennilegar samgöngur okkur öllum til heilla. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)