149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

störf þingsins.

[15:22]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Eftir #metoo-byltinguna. Eftir #ískuggavaldsins þar sem íslenskar stjórnmálakonur kölluðu eftir því að við karlmenn tækjum ábyrgð í stjórnmálum og brygðumst við kynbundnu og kynferðislegu áreiti sem þær hafa þurft að þola. Eftir sérstaka umræðu sem hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir startaði í desember fyrir rúmu ári síðan. Eftir rakarastofuráðstefnuna sem við héldum í þinginu þar sem við fengum til okkar sérfræðinga, dómara í lögum til að útskýra fyrir okkur hvað kynbundið áreiti er, hvað kynferðislegt áreiti er. Við vitum öll sem vorum á því námskeiði hvað það er.

Svo höldum við í þingsal mikla ráðstefnu þar sem allir þingflokkar lofa bót og betrun og að lokum leggur forsætisnefnd fram þingsályktunartillögu um að breyta siðareglum og breyta andanum á þingi.

Í tillögunni, sem allir þingmenn í salnum þá samþykktu, tillagan var samþykkt samhljóða með 58 atkvæðum í þingheimi, segir að, með leyfi forseta, „þingmenn skuldbindi sig til þess að leggja sitt af mörkum til að skapa heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan, sem sé laust við kynbundna og kynferðislega áreitni […] Jafnframt að það sé skylda hvers og eins þingmanns að hafna slíku hátterni …“

Það er ekki nóg að segja þessa hluti, maður verður líka að stoppa þá sem segja þá. Það er ekki nóg að þegja. Þetta er það sem við lofuðum. Þetta skrifuðum við öll undir. Samt ætlar formaður umhverfis- og samgöngunefndar sem viðhafði slíkt hátterni á Klausturbar — og ég er viss um að ég gæti ekki haft það sem hann sagði eftir honum í ræðustól án þess að vera skammaður af forsetanum — ekki að stíga til hliðar. Ekki í trúnaðarstöðu fyrir þingflokkinn sinn. (Forseti hringir.) Hann getur áfram verið varaþingflokksmaður þingflokks, það er bara þingflokkurinn sem ákveður það. Hann þarf ekki að fara í trúnaðarstöðu fyrir Alþingi, (Forseti hringir.) innan Alþingis. Þetta er staðan sem við stöndum frammi fyrir. (Forseti hringir.) Það er aðeins Miðflokkurinn eða meiri hlutinn í nefndinni sem getur gert eitthvað í málinu.

Ég mun í störfum þingsins í kjölfarið (Forseti hringir.) taka hvern og einn upp sem er í nefndinni og hefur rætt um þau mál … (Forseti hringir.) og spyrja þá hvort þeir ætli að standa við þetta.