149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:12]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það var áhugavert að heyra þessa ræðu. Það er nú svo að þessum 12.000 km af vegakerfi sem hér eru hefur ekki tekist að halda almennilega við eftir hefðbundnum leiðum og þá tek ég tillit til hrunsins og alls þess. Ef hér væru 1–2 milljónir bíla í landi af þessari stærð væri sennilega öðruvísi með skatta og bifreiðagjöld.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um daglegan ferðakostnað manns sem ekur frá Selfossi til Reykjavíkur og talaði um bensínkostnaðinn eingöngu. Ég flutti hér mjög innblásna gátu í gær þar sem ég reyndi að útskýra að rekstrarkostnaður bíls er á bilinu 60–120 kr. á kílómetrann. Það þýðir, á þessari 60 km leið, 3.600–7.200 kr. Eigum við ekki að skoða veggjöldin í ljósi þessa? Hætta að tala um bensíneyðsluna eina? 300–400 kr., ég ætla ekki að negla það niður en ég tel að ávinningurinn komi á móti. Það eru jú öryggismálin sem hv. þingmaður nefndi, tíminn sem sparast, slitið á bílnum sem sparast og við skulum segja einhver dreitill af bensíni sem sparast. Þetta er hugmyndafræði þessarar leiðar í hnotskurn, það er ávinningurinn miðað við það sem menn leggja til, í ljósi þess hvað það kostar í raun og veru að keyra. Menn keyra þessa leið og þessi háttvirti maður sem var að keyra þarna, hann keyrir þessa leið hvort sem eru veggjöld eða ekki veggjöld.

Ég vil fá hv. þingmann til að útskýra af hverju hann tekur ekki með raunverulegan rekstrarkostnað bíls þegar hann er að spekúlera í þessu með okkur hér.