149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að vissulega er fleira en bara bensínið sem kemur inn í rekstrarkostnað bifreiðar. Það er afskrift á bílnum, tryggingar, bifreiðagjöld, hjólbarðar, viðhald og annað þess háttar. Sumt af því er fastur kostnaður, alveg óháð akstri, eins og tryggingarnar. Við getum sagt að stofnkostnaður bílsins sé að hluta til svolítið fastur þannig að kostnaður okkar á hvern ekinn kílómetra lækkar eftir því sem við ökum fleiri kílómetra. En ég held að flest mælum við nú líka þennan daglega rekstrarkostnað okkar af bifreiðinni, þ.e. bensínið sem við þurfum jú að borga fyrir vikulega, ekki bílinn sem við kaupum á einhverra ára fresti. Og þetta breytir því ekki að veggjöldin auka þennan kostnaðarlið alveg jafn mikið. Tökum þennan einstakling sem ekur milli Selfoss og Reykjavíkur daglega til og frá vinnu, segjum að það séu 220 dagar á ári eða þar um bil sem ekið er til höfuðborgarinnar fyrir utan einhver önnur tilfelli. Fljótt á litið sýnist mér gjöldin auka ferðakostnað hans um 150.000–200.000 kr. og ég er engu bættari hvort sem ég tel tryggingarnar með eða ekki í þeirri upptalningu. Það gefur augaleið að þetta eykur verulega kostnað við það að sækja vinnu.

Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að vafalítið mun þessi einstaklingur ekki segja upp vinnunni sinni í Reykjavík af því að það komi veggjöld. Hann mun sennilega keyra áfram til Reykjavíkur og til baka. Það verður bara dýrara, það verður minna til skiptanna fyrir viðkomandi einstakling eða fjölskyldu eftir ferðakostnaðinn.

Við þurfum að horfa á þetta af fullri sanngirni. Það er ekkert sjálfgefið að fólk sem ekur um þetta langan veg daglega til og frá vinnu geti auðveldlega nýtt sér aðra samgöngukosti út frá þeim sveigjanleika sem það þarf mögulega á að halda. Við eigum að lágmarki að gefa okkur tíma til að skoða með heildstæðum hætti hver áhrifin á þennan hóp yrðu (Forseti hringir.) því þetta er augljóslega sá hópur sem hlutfallslega mun greiða mestan hluta af þessum kostnaði.

(Forseti hringir.) Og svo því sé til haga haldið: Vegalengdin styttist ekkert við það að brautin sé tvöfölduð.

(Forseti (ÞorS): Forseti biður þingmenn að virða ræðutíma.)