149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:17]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað styttist ekkert leiðin en það er eitt og annað sem breytist við tvöföldunina, kannski alla leið inn í Reykjavík, kannski Bæjarhálsinn líka o.s.frv. Hvers virði er öryggið? Við erum jú að tala um að það kostar þúsundir króna að keyra þessa leið og við erum að tala um veggjöld sem eru af stærðargráðunni hundruð króna og bera saman álögurnar í viðmiði við ábatann. Ég skil ekki þetta svar og þar við situr.

Loftslagsávinningurinn, minni mengun, greiðari almenningssamgöngur af tvöfölduðum vegi. Hvatinn sem felst í því að bensínbílaeigendur borga jú tvöfalt gjald, ef við orðum þannig, með veggjöldum og bensíngjöldum. Það gera rafbílaeigendur ekki. Það er ákveðin hvatning þar. Kolefnisgjaldið heldur áfram að virka. Það að segja að hér verði engin sérstök loftslagsáhrif er bara rangt. Auðvitað verður framtíðin sú að það verður borgað á hvern kílómetra af akstri rafbíls eða vistvænni bíla þegar fram í sækir.