149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[16:19]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð eiginlega að segja fyrir það fyrsta um allar þessar vegabætur sem hér er lögð áhersla á undir hatti veggjalda, þ.e. Reykjanesbrautin, Suðurlandsvegur, Vesturlandsvegur, að áhrif á ferðatíma eru auðvitað langmest í þeim stofnvegaumbótum sem eru innan höfuðborgarsvæðisins því þar er helsta umferðarteppan. Lausnin þar felst í samblandi af uppbyggingu borgarlínu, þessa gríðarlega mikilvæga verkefnis sem þar bíður, og nauðsynlegra samgöngubóta í vegakerfinu, ekki bara þeim sem tengdar eru borgarlínu heldur eru til að bæta flæði um götur borgarinnar í heild eða höfuðborgarsvæðisins í heild. Það er sáralítið að finna um það í þessari samgönguáætlun. Enn og aftur er höfuðborgarsvæðið undanskilið sem er búið að vera í fjárfestingarfrystingu í áratug. Enn og aftur er sagt: Ja, þið verðið að hinkra eða borga í það minnsta meira ef þið ætlið að fá eitthvað. (Forseti hringir.)

Þetta er algjört metnaðarleysi af hálfu meiri hlutans, sama (Forseti hringir.) hvernig á það er litið. Ég held að það ætti bara að ljúka þessari umræðu í heild og hvernig eigi að fjármagna hana í heild áður en við afgreiðum þessa samgönguáætlun.