149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[17:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni skynsamlegt svar, hann svaraði yfirvegað og af þekkingu. Ég tek heils hugar undir að að sjálfsögðu verði að fara mjög varlega þegar ákvarðanir verða teknar um að selja hlut ríkisins í ríkisbönkunum, eða a.m.k. hluta þess.

Hv. þingmaður nefndi Hvalfjarðargöngin. Ég er alveg sammála því að það var afar vel heppnað verkefni. En gleymum því ekki að þegar það hófst voru menn mjög skeptískir og sumir hétu því að keyra aldrei göngin o.s.frv. Reyndin varð önnur og eins og hv. þingmaður nefndi réttilega eru göngin gott dæmi um vel heppnaða framkvæmd.

Að vísu tel ég að Hvalfjarðargöngin séu ekki alveg sambærileg hugmyndinni um veggjöld á helstu stofnæðum út frá höfuðborgarsvæðinu. Ef við tökum Reykjanesbrautina sem dæmi er enginn annar valkostur fyrir íbúana en að fara þá leið þar sem þarf að greiða veggjald. Í Hvalfjarðargöngunum var valkostur þannig að þeir sem vildu ekki greiða gjaldið gátu farið aðra leið, gátu ekið fyrir Hvalfjörðinn.

Það er svolítið atriði í þessu að menn hafi valkost en svo er nefnilega ekki í tilviki helstu stofnæðanna. Það var nefnt í ræðu að hægt væri að fara Suðurstrandarveginn en við vitum að enginn mun gera það, sú leið er mun lengri.

Það er að mörgu að hyggja í málinu en ég þakka hv. þingmanni fyrir greinargott svar og mjög góða ræðu