149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[18:16]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er ekki sérfróður um veggjöld og þekki raunar ekki mikið til þeirra mála í Evrópu nema sem neytandi stöku sinnum.

Norðmenn eru í stórum hópum orðnir langþreyttir á þessari gjaldtöku. En þetta hefur haft áhrif á uppbyggingu almenningssamgangna, hef ég trú á, þótt ég hafi ekki staðfestingar um það. Ég held að það hafi ýtt undir að menn nýti sér almenningssamgöngur.

Svíar, eins og komið hefur fram í ræðu hv. þm. Loga Einarssonar, eru farnir að gefa gaum að samræmdri innheimtu samkvæmt kílómetramælingum. Við köllum eftir því. Þjóðverjar eru líka mikið með þessar hugmyndir um svokallaða GPS-mælingu, þráðlausar mælingar. Það sé bara hreinlega mælt þegar maður hreyfir bílinn, skráð með GPS-boðum, en menn óttast auðvitað að það uppfylli ekki persónuverndarákvæði. Það þarf að ganga úr skugga um hvort sé ekki hægt að tryggja slíkt og binda vel um hnúta af þessu tagi og auðvitað myndi þetta styrkja GPS-netið um landið allt.

Varðandi mikilvægi veganna þá er það þjóðvegur 1 sem við einblínum á. Vesturlandsvegur og Kjalarnesvegur eru auðvitað hluti af þessu kerfi. Það er satt að segja dálítið hráslagalegt að aka þarna um í öllum veðrum þar sem meiri hluti umferðarinnar eru stórir flutningabílar.