149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:26]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Frú forseti. Við ræðum samgönguáætlun og vegakerfið okkar sem engan veginn annar þeirri umferð sem við búum við í dag. Bæta þarf umferðaröryggi, tryggja betra umferðarflæði milli staða, stytta vegalengdir og huga að markmiðum sem við höfum sett okkur í loftslags- og byggðamálum.

Hér á suðvesturhorninu eru stór verkefni sem þarf að leysa. Fólk sækir vinnu og nám í auknum mæli um lengri veg og þarfnast bætts umferðarflæðis, umferðaröryggis og ekki síst bættra almenningssamgangna. Auk íbúa landsins fer meginþorri þeirra ferðamanna sem koma til landsins frá Keflavíkurflugvelli um Reykjanesbraut til höfuðborgarsvæðisins og þaðan út á land. Stór hluti þeirra fer svo um Suðurlandið þar sem einnig er mikilla framkvæmda þörf.

Umferðaröryggið á einbreiðum brúm og allt of mjóum vegum á Suður- og Suðausturlandi er stórhættulegt eins og dæmin sýna okkur. Átak hefur verið gert í merkingum við einbreiðar brýr sem hefur haft áhrif til betri vegar að einhverju leyti en enn er ekki komin reynsla á lækkun umferðarhraða við einbreiðar brýr sem mun vonandi reynast vel.

Unnið er að útfærslum nýrra fjármögnunarleiða með auknum framkvæmdahraða að markmiði í starfshópum á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og einnig til að skapa fjárhagslegt rými til að fara í nýjar framkvæmdir. Fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans að meiri hluti gesta sem kom fyrir nefndina tók vel í hugmyndir um gjaldtöku, ef slíkt gæti hraðað framkvæmdum, gjöld væru hófleg og tilgangur skýr. Ég tek undir það sjónarmið sem þar kemur fram.

Forgangsröðun í þágu umferðaröryggis er mjög skiljanleg en ég verð þó að lýsa vonbrigðum mínum með að í breytingartillögum meiri hlutans er fjárframlag til nýrrar vegalagningar um Hornafjarðarfljót fært aftar í áætluninni. Sú vegalagning bæði styttir hringveginn og eykur gífurlega umferðaröryggi á staðnum með fækkun um þrjár einbreiðar brýr, auk þess sem vegurinn er þá breikkaður í takt við ný viðmið og öryggisstaðla. Ég treysti því, eins og hefur margoft verið komið inn á í umræðunni, að sú áætlun sem lögð er fram verði tekin til endurskoðunar strax í haust þegar hugmyndir um nýjar fjármögnunarleiðir hafa verið lagðar fram og samþykktar.

En að öðrum samgöngum. Hér er talað um hjólreiðar sem hafa ekki fengið mikið pláss í umræðunni. Ég vil taka undir að gott er að bæta aðstöðu til hjólreiða á suðvesturhorninu. Í tillögunum eru settir 1,5 milljarðar á árunum 2019–2023 en lækkar svo þegar líður á tímabilið í 15 ára áætluninni. Talið er að meginhluti af þeirri fjárveitingu fari til stofnvegakerfis á höfuðborgarsvæðinu en líka er bent á nauðsyn hjólreiðarstíga á landsbyggðinni. Vil ég minna á að meðfram hringveginum er nauðsynlegt að koma á betri aðstöðu því að á hverju sumri, eða um leið og fer að vora, skapast mikil hætta þar vegna ferðamanna sem sækja okkur heim og hjóla hringinn, ég tala nú ekki um þegar það eru flott átök eins og WOW cyclothon og annað í gangi. Þetta er stórhættulegt.

Varðandi almenningssamgöngur tek ég undir það með meiri hlutanum að brýnt er að þær séu fyrir hendi í öllum landshlutum. Þá tel ég einnig brýnt að landshlutarnir séu tengdir saman með almenningssamgöngum allan hringinn svo að þær séu raunhæfur kostur fyrir ferðamenn, námsmenn og aðra íbúa sem vilja ferðast um landið og sinna erindum á þann hátt.

Í umræðunni hefur verið talað hversu langan tíma taki að fara með strætó t.d. frá Reykjavík til Akureyrar eða Egilsstaða. Ég vil leggja áherslu á að það er fólk sem vill ferðast innan landshlutanna. Það er ekki þannig að allar ferðir með almenningssamgöngum á landi séu frá Reykjavík heldur fer fólk líka á milli innan landshlutanna.

Þá að flugi og flugvöllum. Ég tek undir áréttingar meiri hluta nefndarinnar um málefni flugsins. Nauðsynlegt er að leggja áherslu á uppbyggingu varaflugvallanna á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík og jafnframt að minni vélum í millilandaflugi verði veitt heimild til að lenda á Hornafirði, í Vestmannaeyjum og á Ísafirði. Það dreifir ferðamönnum um landið, léttir álagi af Keflavíkurflugvelli og eykur enn meira öryggi í flugi.

Niðurgreiðsla flugfargjalda innan lands er mikið byggða- og hagsmunamál fyrir íbúa landsbyggðarinnar sem búa lengst frá höfuðborgarsvæðinu. Flugfargjöld innan lands eru mjög dýr og greiða einstaklingar fullt fargjald frá 12 ára aldri. Verkalýðsfélögin hafa komið mikið til móts við félaga sína og niðurgreitt flugfargjöld en við skulum muna að 12 ára gömul börn greiða ekki í verkalýðsfélög. Einn leggur, almennt flugfargjald, til Hornafjarðar kostar 27.700 kr. fyrir 12 ára gamalt barn. Þar er engin niðurgreiðsla í boði.

Það er því fagnaðarefni að unnið sé að því að innleiða niðurgreiðslukerfi flugfarþega af landsbyggðinni að skoskri fyrirmynd.

Varðandi hafnarframkvæmdir er í áætluninni eitt atriði sem ég vil koma inn á og það er sandfangari við Einholtskletta fyrir utan Hornafjarðarós. Þar er gert ráð fyrir 60% fjármögnun af hendi ríkisins en ég sé mig knúna til að benda á að þarna er ekki um hafnarframkvæmd að ræða heldur mannvirki til að hafa áhrif á umferðaröryggi skipa um Hornafjarðarós, utan fjarðar, og ætti því að vera fullfjármagnað af ríkinu.

Að lokum langar mig til að nota tækifærið og minna á brýna samgönguframkvæmd sem ekki er komin inn á áætlun en náttúruöflin minntu okkur hressilega á síðastliðinn mánudag. Það eru göng undir Lónsheiði sem kæmu í stað vegarins um Hvalnes- og Þvottárskriður. Þar voru um 80 manns á tveimur rútum, mjólkurbíl, flutningabíl og níu fólksbílum lokaðir inni á milli snjóflóða síðastliðinn mánudag en var bjargað úr aðstæðunum af snjóruðningstæki Vegagerðarinnar. Má þakka fyrir að ekki fór illa á þeim tíma.