149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[19:33]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P):

Frú forseti. Við ræðum hér samgönguáætlun og sér í lagi vegtolla. Skilgreining vegtolla er á þennan veg:

„Vegtollur er gjald sem ökumenn greiða fyrir afnot af vegi, göngum eða brú. Aðrir vegir eru fjármagnaðir með almennum sköttum eða með sérstökum eldsneytisskatti, þungaskatti og/eða álögum á hjólbarða.“

Þó að við séum ekki að ræða hér um beina skatta per se er þessi leifturaðgerð meiri hlutans frekar undirförul leið til að svína peninga út úr almenningi landsins vegna þess að hvergi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að íþyngja eigi þjóðinni með slíkum vegtollum heldur kemur þar fram að eignatekjur ríkisins verði hægt að nýta í þeim tilgangi.

Eins og bent hefur verið ítrekað á í þessum ræðustól síðustu tvo sólarhringa mun þessi gjaldtaka bitna einna helst á þeim sem minnst eiga. Þessi aðgerð meiri hlutans vinnur því beint gegn auknum jöfnuði í samfélaginu og það í boði meiri hluta sem leiddur er af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur.

Vegtollar mismuna vegfarendum eftir búsetu og atvinnu og er þetta þvert á vilja þjóðarinnar eins og fram hefur komið í skoðanakönnunum sem og í ógrynni umsagna sem bárust umhverfis- og samgöngunefnd við umfjöllun málsins þar. Alls bárust um 1.500 umsagnir og lýstu 95% þeirra andstöðu við áform ríkisstjórnarinnar um að leggja á veggjöld. Eins hafa skoðanakannanir sýnt fram á að 54% landsmanna eru andvíg þeim og einungis 32% styðja aðgerðina.

En hvers vegna? Hvers vegna hefur ríkisstjórnin ákveðið að fara þessa leið núna í skjóli myrkurs, fyrst fyrir áramót þar sem stjórnarandstaðan þurfti að leggja kapp á að fresta málinu til að hægt væri að vinna það betur innan þings? Þeirri sem hér stendur virðist að gæluverkefni ríkisstjórnarinnar á borð við þjóðarsjóð — sem ég get algerlega tekið undir að er mikilvægt mál að ráðast í — hafi verið sett í forgang og tekin fram yfir það að fjármagna uppbyggingu vegakerfisins sem nauðsynlega þarf að ráðast í fyrir líf og heilsu þessarar þjóðar. Þjóðarsjóður er að mínu mati ekki jafn „akút“ mál og það að byggja upp vegi landsins þannig að þeir séu öruggir þeim farþegum sem um þá þurfa að fara.

Ég vil vísa hér til orða hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra í þingsal fyrir örfáum dögum þar sem hann fullyrti að hann hefði engar teljandi áhyggjur af því að eitthvert yfirvofandi fjármálahrun væri í kortunum. Allt í lagi. En lítum nú á það sem stendur í greinargerð frumvarps um þjóðarsjóð:

„Markmið laga þessara er að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til að mæta afleiðingum af meiri háttar ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir.“

Ég fæ illa séð hvers vegna ríkisstjórnin ákveður að forgangsraða ófyrirséðum áföllum fram yfir þau sem raunverulega eru fyrirséð. Það er fyrirséð að vegir landsins munu í núverandi ástandi valda fólkinu sem hér býr alvarlegum slysum og alvarlegum áföllum, landi og þjóð.

Þó að ég hafi tekið það fram í upphafi míns máls að ekki sé um eiginlegan skatt að ræða er raunverulega í framkvæmd um skatta að ræða, eins og hv. þm. Þorgerður Katrín komst að orði hér áðan. Það er ákveðinn orðhengilsháttur að bítast um það hvort um sé að ræða skatta eða ekki vegna þess að þessar greiðslur munu samt sem áður leggjast ofan á kostnað við daglegt líf fólks í landinu og leggjast þyngst á tekjulægstu hópa samfélagsins.

Það hefur verið rætt um orkuskipti í ræðustól síðustu daga og eins kom það fram í orðum hæstv. samgönguráðherra. Með leyfi forseta, ætla ég að vitna til orða hæstv. samgönguráðherra hér á þingi í desember:

„Af hverju þarf að grípa til veggjalda? Jú, það er m.a. vegna þess að í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, í orkuskiptum, höfum við orðið þess fullviss að tekjur ríkisins af bensín- og dísilgjöldum munu fara hratt lækkandi næstu ár. Þær tekjur munu ekki duga fyrir þeim vegaframkvæmdum sem við almennt sættum okkur við.“

Hins vegar kom það fram hér í ræðustól í gærkvöldi hjá hv. þm. Rósu Björk Brynjólfsdóttur að orkuskiptin gerast ekki nærri eins hratt og búist var við og vonast var til. Í ræðu þingmannsins kom fram að einungis 1% bílaflotans væri nú þegar rafbílar eða tengiltvinnbílar. Þegar skoðuð er saga rafbílavæðingar og orkuskipta hér á landi kemur í ljós að síðan árið 2014 höfum við aðeins náð að rafbílavæða flotann upp í þetta 1%. Það er því miður erfitt að sjá hvernig rök hæstv. samgönguráðherra halda. Hann komst svo að orði að þau væru orðin þess fullviss að tekjur ríkisins af bensín- og dísilgjöldum færu hratt lækkandi næstu ár. Ég leyfi mér, virðulegi forseti, að efast um þá fullyrðingu hæstv. ráðherra í ljósi þessarar lúshægu þróunar í orkuskiptum, því miður.

Ég ætla að enda þetta á aðeins jákvæðari nótum en ég hóf mitt mál. Það var mjög ánægjulegt að heyra í gærkvöldi stjórnarliða tala fyrir aukinni hjólavæðingu hér innan lands. Þá talaði hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir um það hversu mikilvægt væri að horfa til þess fyrir okkur. Eflaust er það, eins og hv. þingmaður benti á, flóknara þegar komið er út fyrir borgarmörkin. En innan borgarmarka er þetta alveg rakið og eitthvað sem við þurfum að ráðast í og er stórt og mikilvægt skref hvað varðar loftslagsmál á Íslandi. Við þurfum ekkert að ferðast langt til þess að sjá snilldina, algera snilld, í þeirri þróun og slíku samgöngufyrirkomulagi. Við þurfum ekki annað en að fara til Kaupmannahafnar og þar er veðráttan oft ekkert mikið skárri en hér. Þar er heil menning í kringum hjólreiðar og hjólastíga. Þar notar fólk hjólreiðar í daglegu lífi og það er ekkert endilega notað þar sem afsökun að eiga börn, þar er fólk bara með hjólakerrur aftan á hjólinu svo hægt er að flytja börnin á milli staða.

Ég sagðist ætla að enda þetta á jákvæðum nótum. Ég laug því. Ég ætla aftur að býsnast yfir þessum vegtollum og hversu hratt þessu hefur verið ýtt í gegnum þingið, eða reynt að ýta því í gegnum þingið. Það hefur skort þá nauðsynlegu greiningarvinnu sem hefði átt að eiga sér stað. Eins og hv. þm. Þorsteinn Víglundsson benti á um daginn þá hefði það tekið önnur lönd mörg ár að ráðast í svona gríðarstóra breytingu. Það er mjög bagalegt að horfa upp á þessa stjórnarhætti. Þetta er óþægilegt fyrir þingið. Þetta er óþægilegt fyrir þjóðina. Minnir pínulítið á þegar styttingu framhaldsskólanámsins var þrýst í gegn án þess að nauðsynleg greiningarvinna væri gerð á því hvaða áhrif hún gæti haft á t.d. nemendur. Við sjáum nú að andlegri líðan þeirra er að hraka. Ég hefði viljað sjá almennilega greiningarvinnu, vandað til verka, að málið væri ekki jafn vanreifað og það er því miður enn, þrátt fyrir þessa tvo daga sem við höfum haft hér og samtöl innan umhverfis- og samgöngunefndar. Ég hefði viljað að menn vönduðu meira til verka, ég vil fyrst og fremst gagnrýna það.