149. löggjafarþing — 63. fundur,  6. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[21:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum séð greiningu sem fjallaði um 90 milljarða framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og var Sundabrautin inni í því dæmi. Þar var gert ráð fyrir u.þ.b. 5 milljörðum á ári í veggjöld. Þetta er 1/3 minna, eða 60 milljarðar, þannig þá erum við komin með 4–5 milljarða á ári til að fjármagna þessar framkvæmdir miðað við 20 ára afborganir. Samfélagslegur kostnaður er 50 milljarðar. Minnkuð slysatíðni á að helminga þann kostnað sem verður þá 25 milljarðar, sem er ábatinn af því að fara í framkvæmdirnar. Varlega áætlað tekur ríkið 40% af því og þá erum við komin í 10 milljarða, varlega áætlað eru það 5 milljarðar, sem er þá beinn hagnaður ríkisins af því að fara í framkvæmdirnar. Það er nákvæmlega sama tala og þarf til þess að innheimta veggjöld. Maður veltir fyrir sér af hverju er ekki einfaldlega horft í ábatann sem verður til við að fara í framkvæmdirnar og hann notaður til að borga fyrir þær, í rauninni á mun styttri tíma af því þetta er varlega áætlað.

Samgönguáætlun eins og hún lítur út núna, ekki með þeim framtíðarsamgöngubótum sem allir eru sammála um, það kemur fram í áliti minni hlutans, er þannig að allar framkvæmdir eru skildar eftir sem eru öryggisins vegna mikilvægar eða umferðarþungalega séð. Það er nokkurn veginn ekki tikkað í neitt þeirra boxa sem ætti að haka í, ekki einu sinni þegar kemur að byggðasjónarmiðum, vegna ýmissa vandamála sem tengjast því. Þær framkvæmdir eru ekki teknar með inn í samgönguáætlun. Maður hefur heyrt í umræðunni að þær séu mjög seint í áætluninni af því þær eru veggjaldatækar. Þær eru skildar eftir einfaldlega af því að hægt er að taka veggjöld af þeim. (Forseti hringir.) Við sleppum framkvæmdunum í samgönguáætlun, tökum veggjöld fyrir þær (Forseti hringir.) og fjármögnum þær þannig. Og það lendir allt á suðvesturhorninu. Svona lítur núverandi samgönguáætlun út, (Forseti hringir.) ef ég á að vera eins hreinskilinn og ég get verið.