149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:20]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Með leyfi:

„Ísland getur orðið fremst meðal jafningja, land þar sem hugvitsdrifin nýsköpunarfyrirtæki geta ekki bara orðið til heldur líka vaxið og orðið að burðarásum í hagkerfinu.“

Þessi orð hv. þm. Jóhönnu Vigdísar Guðmundsdóttur í nýlegri grein ramma mjög vel inn raunveruleikann. Við Íslendingar eigum sannarlega dæmi um það, til að mynda í sjávarútvegi, hvernig vel hefur tekist til að nýta þekkingu sem safnast hefur í gegnum tíðina til að finna nýjar og betri leiðir til að gera hlutina.

Við þurfum hins vegar að horfa til framtíðar og er ljóst að þar þurfum við að spýta í lófana og horfa vítt yfir sviðið, ekki síst til ungu kynslóðarinnar. Og þar þurfum við að horfa til menntakerfisins. Við eigum að kenna frumkvöðlahugsun alveg niður í leikskóla og við eigum tvímælalaust að vera fyrir löngu farin að kenna forritun sem eitt af grunntungumálunum. Öðruvísi breytum við ekki framtíðinni.

Ekki er síður mikilvægt að auka veg og vanda iðnmenntunar og iðnþekkingar. Þá sýnir reynslan hér og erlendis að mikilvægt er að hafa tryggt aðgengi að þolinmóðu fjármagni, styrkjum og auðvitað ráðgjöf og má sannarlega gera betur þar. Auðvitað hefur margt gott verið gert, mörg verkefni sem hafa skilað miklu. Má þar nefna, að öðrum ólöstuðum, nýsköpunarkeppni grunnskólanna, Verksmiðjuna, rekstur Fab lab-smiðja í framhaldsskólunum og fjölmörg nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefni í grunnskólunum.

Þetta þarf hins vegar að verða hluti af grunninum, hluti af því sem við lærum. Þar þurfum við að gera mun betur ef við ætlum okkur að vera samkeppnishæf í nýsköpun, í fyrirtækjum, en sömuleiðis til að Íslendingar séu samkeppnishæfir á alþjóðlegum atvinnumarkaði í framtíðinni. Við hljótum að vilja að Íslendingar geti nýtt sér tæknina til þess að skapa í stað þess að vera passífir neytendur.