149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:41]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu eins og aðrir hafa gert hér og lýsi því svo sem yfir sem leikmaður að staða nýsköpunar er allgóð í landinu. Það er auðvitað hægt að skoða það með rauntölum en ég geri það huglægt og byggi það á að vera nokkuð kunnugur henni. Það eru mjög fjölbreytt verkefni í svona litlu þjóðfélagi sem blasa við og ég vil taka fram að hlutverk Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sem hefur verið skýrt, hefur verið mjög mikilvægt. Hún hefur unnið mjög gott starf. Það eru mörg lítil fyrirtæki í landinu, það er kannski sérstaða Íslands. Þá kemur á móti að það er töluverður styrkur af klösunum og Klasasetri Íslands og nú er verið að mynda klasastefnu á Alþingi, sem er líka mikilvægt. Þetta eru þúsundir starfa og það er ekki aðeins að þetta sé mikilvægt fyrir atvinnulíf í landinu, heldur er það ákveðin útrás á sköpunarafli sem ég dáist að í raun og veru.

Ég tek undir orð hv. þm. Bryndísar Haraldsdóttur um að við þurfum að hyggja að því að dreifa kröftunum ekki of mikið, leggja áherslu á sérhæfingu, stærðar vegna og aðstæðna vegna hér á Íslandi. Ég legg líka áherslu á að það er stöðug þörf á því að endurskoða umhverfi og markmið nýsköpunar. Ég fagna því þess vegna að verið er að vinna að því að setja þá stefnu fram á vegum ríkisstjórnarinnar.

Það er líka þörf á því að auka ráðgjöf, það liggur í hlutarins eðli, efla styrkumhverfið og síðast en ekki síst, tryggja betri aðgang að upphafsfjármagni eftir að styrki þrýtur. Þar geta bankar komið að málum, ríki og fyrirtæki og við þekkjum Startup-kerfið sem verið hefur hér viðloðandi.

Herra forseti. Hér hefur heyrst almenn hvatning til þess að nýsköpun sé efld með öllum ráðum, mikilvæg fyrir hefðbundna atvinnuvegi og nýja atvinnuvegi (Forseti hringir.) og það er gleðilegt að sjá hér samstöðu. Ég vil sjá framtíðarsetur og framtíðarþingnefnd til frambúðar.