149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

gildi nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag.

[11:43]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að taka undir síðustu orð hv. þm. Ara Trausta Guðmundssonar um framtíðarþingnefnd til frambúðar. Við erum svo sem með framtíðarnefnd sem er á vegum forsætisráðherra í bili og hún starfar nokkuð vel, að ég tel.

Mér finnst gott að sú mýta hafi verið afskrifuð endanlega í umræðunni af mörgum hv. þingmönnum að hlutverk hins opinbera í nýsköpun sé að hafa skattana lága og sitja svo við hliðarlínuna. Virk aðkoma stjórnvalda við stefnumótun og stuðning við atvinnuvegi skiptir máli og auðvitað er ýmislegt sem þarf að gera. Við þurfum fyrst og fremst að búa til hvata fyrir fyrirtæki til að lengja framleiðslukeðjuna og flytja út fullunnar vörur. Það er í löngum virðiskeðjum sem nýsköpun nýtist best. Líka er gagnlegt að slá niður óþarfaaukagjöld á stofnun og rekstur fyrirtækja, laga samkeppnissjóðina, sameina suma og efla þá alla, heimila umbreytanleg skuldabréf þannig að áhættufjárfestingar verði álitlegri o.fl.

Ég vil líka meina að afskaplega gagnlegt væri ef hæstv. ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra myndi taka við boltanum af utanríkisráðherra um að tryggja inngöngu Íslands í Geimferðastofnun Evrópu, ESA. Ég segi það vegna þess að Alþingi hefur ályktað um að við eigum að ganga í þau samtök og stofnun en utanríkisráðherra hefur því miður ekki gert neitt í málinu. Augljós ávinningur væri af því að við tækjum þátt í slíku samstarfi. Það eru fáar jafn einfaldar og ódýrar vítamínsprautur fyrir nýsköpun sem eru aðgengilegar okkur. Einnig væri gagnlegt að koma á nýjum þróunarbanka á borð við þá sem hafa þekkst erlendis og sem vinna að efnahagslegum markmiðum, veita m.a. ódýr lán til fyrirtækja (Forseti hringir.) til að byggja upp verðmætar útflutningsvörur o.fl. En kannski er mikilvægast í því að við hættum að trúa því að lækkun skatta sé eina leiðin til árangurs. Það er svo margt jákvætt sem hægt er að gera — gerum það.