149. löggjafarþing — 64. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[12:46]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni fyrir hans framsögu. Það er ærið margt sem ég get tekið undir af því sem hann sagði.

Hversu lágt getur ein ríkisstjórn lagst í því að leggja aukna klafa á alþýðu þessa lands? Er ekki svolítið hjákátlegt að það skuli vera á 20 ára afmæli Vinstri grænna sem á að slengja vegsköttum á íslenska alþýðu? Það er alveg nákvæmlega sama hversu lágar upphæðir er hér verið að tala um: Þið þurfið ekki að borga nema 300 kr. á þessum legg, eða 500 kr. á hinum leggnum. Einstaklingur sem er skattlagður með undir 300.000 kr. í framfærslu, einstaklingur sem er skattlagður til sárrar fátæktar, hefur ekki efni á að greiða eina einustu krónu í viðbót við þær álögur sem hann þarf að taka á sig bara með því að eiga bifreið.

Það velkist enginn í vafa um það að við þurfum stórátak í samgöngumálum, sem hafa rekið hér á reiðanum og ástandið gjörbreytt á þjóðvegum og gatnakerfi landsins, það er nokkuð ljóst, með auknum ferðamannastraumi, á tímabili komu hér hátt í 3 milljónir ferðamanna, og með alla þungaflutningana komna út á þjóðvegina eftir að strandsiglingar lögðust af. Við vitum að það er verið að spæna upp gatnakerfið. Við vitum að það þarf að tvöfalda leggina. Við vitum að það verða stór slys og íslensk alþýða og Íslendingar sem og ferðamenn eru í stórhættu. Við vitum að það er um 50 milljarða kostnaður á ári sem er beintengdur slysum vegna umferðaróhappa. En hvað er til ráða? Má ekki bæta úr og laga hlutina og gera það fljótt og vel án þess að ætla að skella reikningnum á fátækt fólk á Íslandi? Er ekki komið nóg?

Hvað með kolefnisgjaldið sem á að draga úr loftslagsmengun og öðru slíku? Er það ekki svolítil mótsögn þegar Vinstrihreyfingin – grænt framboð talar um kolefnisgjaldið sem gefur þó nokkuð marga milljarða í ríkissjóð á hverju ári, fyrir tveimur árum held ég að það hafi verið um 3,5 milljarðar og nú er búið að hækka það um meira en 50% síðan, þannig reikni nú hver sem reiknað getur. Við erum með sennilega yfir 5 milljarða núna á árinu í kolefnisgjald. Má ekki nota það til að byggja upp vegina? Og þessi tvískinnungur endalaust að tala um loftslagsmálin á sama tíma og við brennum á Bakka yfir 66.000 tonnum af kolum á ári . Hvað skyldi nú bílaflotinn menga mikið ef við reynum að bera það saman við þá ótrúlegu mengun sem kemur frá t.d. Bakka, plús 45.000 tonn af viði sem er brenndur þar árlega og fluttur hingað til lands af skógum sem eru höggnir?

Hvernig ætlum við að fjármagna þetta? Við getum t.d. tekið 10 milljörðum meira af þeim okurálögum sem eru lagðar á íslenska bifreiðaeigendur og sett beint í þessar framkvæmdir. Það er í rauninni sama hvert litið er. Forgangsröðun fjármuna hér er galin eins og venjulega. Klafarnir eru settir á þá sem síst skyldi. Alltaf er sagt að bognu bökin geti bognað meira, þeir sem eru búnir að vera hér á hnjánum og biðja Alþingi og okkur sem hér sitjum um hjálp. Þeir fá bara annað kjaftshögg, enn eina tuskuna í andlitið. Nei, þið þurfið enga hjálp þó að þið fáið ekki nema 212.000 kr. útborgað. Þið þurfið enga hjálp þótt þið séuð með þrjú börn og getið ekki veitt þeim nokkurn skapaðan hlut. Þið skuluð fara að borga gatnaskatta, vegskatta. Það er það sem þið skulið fá í hausinn. Ef þið hafið ekki efni á að borga þessa skatta getið þið bara verið heima hjá ykkur.

Skilaboðin eru skýr, virðulegi forseti. Flokkur fólksins er algerlega á móti þessari forgangsröðun fjármuna. Hún er í rauninni síðasta sort. Það er löngu orðið tímabært að hætta að leggja á meiri álögur og leita logandi ljósi að nýrri skattbyrði fyrir þá sem hafa ekki efni á að greiða hana. Það er löngu orðið tímabært að horfast í augu við þá sem eru með troðfulla vasa af peningum og láta þá taka frekari þátt í samneyslu okkar og í að byggja upp innviðina. Þeir hafa efni á því. Forgangsröðunin, virðulegi forseti, er síðasta sort.

Enn og aftur legg ég áherslu á það að Flokkur fólksins velkist aldrei á neinum tímapunkti í vafa um að það er nauðsyn á grettistaki í gatnakerfinu. Tökum sem dæmi áðurnefndan ferðamannastraum, ferðamannaauðlindina okkar, það er talað um að þeir verði núna um 2,5 milljónir á ári. Hvar eru komugjöldin? Hvar eru 2.000–3.000 kr. á hvern farþega sem kemur til landsins? Væri það svo rosalega íþyngjandi? Það er annað sem ég hugsa um. Það tókst vel til með Hvalfjarðargöngin, það var náttúrlega afmarkað og eitt ákveðið verkefni og var til þess að stytta leiðina, var til bóta og gaf líka fólki kost á því að keyra Hvalfjörðinn ef því sýndist svo. Loksins þegar allir voru orðnir vanir því að greiða í göngin og þótti það bara algjörlega sjálfsagt var staðið við samninga eins og á að gera og göngunum var skilað og öllu var skilað til okkar, Spölur hætti að innheimta gjöldin. En ég myndi segja að almennileg ríkisstjórn hefði verið búin að ákveða það fyrir fram og a.m.k. gefa kost á því að hugsa sem svo: Þar sem þetta er orðið svona ríkt í þjóðarsálinni og hefur tekist vel, getum við ekki bara haldið áfram þessari gjaldtöku með vísan til þess að merkja það fjármagn og setja það beinustu leið í uppbyggingu á vegakerfinu okkar?

Það er í rauninni alveg sama hvert litið er, fjármagnið er að finna annars staðar en með því að leggja aukna skatta á íslenska alþýðu. Þeir sem hafa nóg af fjármagni, ég tala ekki einu sinni um þá, við tækjum ekki einu sinni eftir því þótt við þyrftum að borga þúsundkall til að fá að keyra til Selfoss. En þann sem á ekki mat á diskinn og nær ekki endum saman, virðulegi forseti, munar um hvern einasta hundraðkall sem á hann er lagður. Og mér finnst dapurlegt að þeir sem aldrei hafa migið í saltan sjó og vita ekki hvað það er að basla skuli engan veginn geta sett sig í þessi spor. Þeim virðist vera algerlega lífsins ómögulegt að skilja að til sé þjóðfélagshópur úti í samfélaginu sem berst í bökkum.

Virðulegi forseti. Er ekki tímabært að gera þessa hluti skynsamlega í þágu allra í stað þess að koma með þetta ömurlega útspil nú, þar sem á einfaldlega að leggja aukna skatta á íslenska alþýðu? Það er furðulegt að þetta gerist undir stjórn ekki bara Vinstri grænna, heldur undir stjórn Sjálfstæðisflokksins, sem kemur hér fram í hverri einustu kosningabaráttu og varla koma Sjálfstæðismenn hér í pontu öðruvísi en að segja að þeir vilji frekar draga úr álögum á almenning og lækka skatta. En kolefnisgjaldið hefur samt sem áður verið hækkað í þeirra umboði um 50%. Og nú á að fara að leggja á nýja skatta, svokallaða vegskatta.

Virðulegi forseti. Ég held að það væri nær að reyna að brosa framan í íslenska alþýðu og taka utan um fólkið okkar, laga gatnakerfið og leita þangað sem peningana er að finna með réttri forgangsröðun, í stað þess að ætla að taka erlend lán upp á tugi milljarða og slengja afborgununum síðan á fólkið í landinu.