149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Sem starfsmaður á plani í malbikinu tók ég mjög vel eftir því fyrir tíu árum þegar hrunið varð að eftirspurnin eftir malbiki minnkaði um 70%. Síðan þá hefur hún hægt og rólega þokast upp, en mjög lítið. Það vita allir sem keyra vegina að það hefur verið gríðarlega vanrækt að setja fjármuni í vegakerfið.

Það sem þessi ríkisstjórn lofaði að gera í stjórnarsáttmála sínum sem hún lagði fyrir sína flokka var að nota eignatekjur ríkisins í vegina. Bara arðgreiðslur úr bönkunum eru 33 milljarðar og þá á ekki að nota í vegakerfið. Það á að setja 30 milljarða í niðurgreiðslu skulda þó að það sé í fjórum sinnum minni forgangi hjá landsmönnum að greiða niður skuldir en að byggja upp vegakerfið.

Þetta er öryggismál og við viljum öll gera þetta. Sú leið sem ríkisstjórnin hefur farið í staðinn fyrir að standa við stjórnarsáttmálann, að nota peninga úr arðgreiðslum og öðrum eignatekjum til að greiða fyrir vegina, er að segja við landsmenn á suðvesturhorninu: Eina leiðin fyrir ykkur til að fá öryggi í vegakerfinu er að borga sjálf fyrir það (Forseti hringir.) úr eigin vasa.