149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:41]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég tek undir með þeim sem fagna því að hér liggur fyrir fullfjármögnuð samgönguáætlun þar sem verið er að bæta við 5,5 milljörðum árlega í þrjú ár, fyrir utan þá 4 milljarða sem bættust við samgönguframkvæmdir á fyrsta starfsári þessarar ríkisstjórnar. Það sýnir að okkur er alvara með því sem við sögðum í stjórnarsáttmála, að við vildum nýta eignatekjur til aukinnar uppbyggingar í samgöngumálum, enda ekki vanþörf á eftir áralanga vanrækslu.

Síðan vil ég hrósa hæstv. samgönguráðherra fyrir sérlega gott samstarf sem þingmaður höfuðborgarsvæðisins við borgarstjóra og bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu. Við höfum saman átt nokkra fundi með þessum forystumönnum á höfuðborgarsvæðinu og sammælst um þá forgangsröðun sem er fram undan í framkvæmdum þar, hvort sem litið er til öflugra almenningssamgangna í borgarlínu eða annarra mikilvægra stofnframkvæmda. Þetta finnst mér vinnubrögð til fyrirmyndar og ég tel að það séu ekki bara bjartari tímar fram undan í samgöngumálum um landið (Forseti hringir.) allt heldur ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Og ég fagna sérstaklega þeirri áherslu á almenningssamgöngur sem hér má finna.