149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:46]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég kem eiginlega hingað upp fyrst og fremst vegna orða hæstv. forsætisráðherra og sem þingmaður Reykjavíkur. Það er stórfurðulegt að tala um að hér sé um að ræða stórkostlegar samgöngubætur fyrir Reykjavík. Suðvesturhornið raunar allt er tekið út fyrir sviga. Ekkert fjármagn að ráði er veitt til suðvesturhornsins heldur eru skilaboðin einföld: Þið þurfið að greiða þetta í veggjöldum ef einhverjar vegabætur eiga að nást fram. Það eru skilaboðin til Reykvíkinga, það eru skilaboðin til íbúa á suðvesturhorninu öllu.

Þegar kemur að almenningssamgöngum og borgarlínu, einni mikilvægustu samgöngubót á höfuðborgarsvæðinu, er varið 800 millj. kr. í undirbúning þess mikilvæga verkefnis en skilað auðu um rest. Þetta er allur metnaður þessarar ríkisstjórnar og meiri hlutans þegar að þessu kemur. Svo heyrum við hina æfðu ræðu um að hér sé um fullfjármagnaða samgönguáætlun að ræða þegar allar stóru framkvæmdirnar hafa verið teknar út fyrir sviga.

Lög um opinber fjármál eru alveg skýr. Okkur ber að vinna innan þess ramma sem (Forseti hringir.) fjármálaáætlun markar okkur og það er ekki sérstakt atriði til að hæla sér af því að hafa unnið eftir lögunum.