149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[14:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Í báðum þessum tillögum minni hlutans er um að ræða popúlískar, ófjármagnaðar tillögur sem eru mjög illa rökstuddar. (Gripið fram í.) Það er magnað að fylgjast með þessum málflutningi, virðulegur forseti, hjá fólki sem talar um einhverja sérstaka skattheimtu á suðvesturhornið sem þetta er alls ekki. Ef tillögur okkar eru lesnar sést að þetta er landsdekkandi innheimta, landsátak í bættum samgöngumálum.

Það eru viðræður í gangi milli samgönguráðuneytisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um hvernig stórkostlegar umbætur í samgöngumálum innan höfuðborgarsvæðisins skuli útfærðar. Þeim er ekki lokið. Að vísu eru þeir flokkar sem saka okkur um einhverja skattheimtu, eins og hv. þingmenn Viðreisnar, þegar búnir að leggja á innviðagjöld í borginni sem koma verst niður á ungu fólki og þeim sem eru að reyna að kaupa sér íbúð í fyrsta skipti af því að þetta lendir allt á útgjaldalið þess. Þetta fólk talar hér og þyrlar upp ryki en horfir ekki í spegil og talar við sjálft sig.