149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil gera grein fyrir atkvæði mínu um breytingartillögu meiri hlutans um áherslur á veggjöld í samgönguáætluninni. Hér er um að ræða algera umbyltingu í hugmyndum um fjármögnun almennra samgönguframkvæmda og er hvergi að finna í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er alls ekki full sátt um þessar fjármögnunarleiðir í þjóðfélaginu. Þær hugmyndir sem settar eru fram snúast um að höfuðborgarbúar greiði uppistöðu vegskatts í landinu því að flestar hugmyndir um staðsetningu á innheimtu eru í kringum höfuðborgarsvæðið. Hér er líka um að ræða fallandi skattlagningu sem leggst hlutfallslega meira á þá tekjulægri en minna á þá efnameiri.

Ég spyr: Á ekki grunnvegakerfið að vera byggt upp og viðhaldið úr sameiginlegum sjóðum frekar en með sérstökum vegskatti?

Hér vantar líka enn nákvæmari og útfærðari tillögur með tölum og tölulegum greiningum til að hægt sé að mynda sér upplýstari skoðun á málinu. Hér finnst mér, herra forseti, að byrjað sé á öfugum enda og með öfugum forsendum, að við ákveðum að setja vegskatt eða veggjöld á án þess að vera með endanlega útfærslu tilbúna.

Ég get ekki stutt þennan hluta breytingartillagna meiri hlutans við samgönguáætlunina og sit því hjá.