149. löggjafarþing — 65. fundur,  7. feb. 2019.

fimm ára samgönguáætlun 2019--2023.

172. mál
[15:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingartillögu meiri hlutans um niðurgreiðslu á innanlandsflugi. Ég geri fyrirvara við þá fyrirætlan að niðurgreiða flugfargjöld frá landsbyggðinni til Reykjavíkur með þessum hætti. Þetta er afskaplega brött aðgerð. Áætlað er að niðurgreiða allt að átta leggi fram og til baka frá landsbyggðinni til Reykjavíkur.

Ég geri mér grein fyrir því að kveðið er á um í sáttmála ríkisstjórnarinnar að unnið verði að því að gera innanlandsflugið að hagkvæmari kosti fyrir íbúa landsbyggðarinnar en sú mikla niðurgreiðsla sem nú er fyrirhuguð bætist við núverandi niðurgreiðslur á innanlandsflugi og hljóðar upp á allt að 1 milljarð á ári til viðbótar og það á tímum þegar við höfum undirgengist Parísarsamkomulagið um að draga úr útblæstri til að sporna við hlýnun loftslags. Við vitum að flug er einn af helstu orsakaþáttum loftmengunar.

Ef þessar miklu niðurgreiðslur á flugi eru hugsaðar sem styrkur til íbúa landsbyggðarinnar, væri þá ekki nær að nýta frekar þennan tæpa milljarð á ári í almenningssamgöngur á landsbyggðinni, í langþráðar umbætur á vegakerfinu á landsbyggðinni eða jafnvel til að bæta þar innviðaþjónustu?

Það er iðulega (Forseti hringir.) vísað í svokallaða skoska leið. Þá má minna á að í Skotlandi hefur skoski græningjaflokkurinn verið afar gagnrýninn á afsláttinn þar (Forseti hringir.) og í skýrslu um stöðu loftslagsaðgerða og loftslagsmála frá árinu 2017 er talað um að frá því að skattafslátturinn á fluginu var tekinn upp hafi útblástur í innanlandsflugi aukist.

Ég mun því sitja hjá við þessa tillögu.