149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

málefni aldraðra.

[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísar til þess að ekki hafi enn náðst samningar um rekstur hjúkrunarheimila. Það er sannarlega bagalegt að staðan skuli vera sú. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá Sjúkratryggingum Íslands sem fara með samningsumboðið fyrir hönd ríkisins er enn verið að skiptast á upplýsingum, þ.e. rekstraraðilar hjúkrunarheimila og Sjúkratryggingar Íslands. Ég hef fengið þær upplýsingar að samskipti standi yfir.

Ég hef áhyggjur af þessu rétt eins og hv. þingmaður en af því að þingmaðurinn nefnir hér sérstaklega Mörkina og starfsemina þar finnst mér sérstök ástæða til að geta þess, sem er ánægjuefni, að þar hefur rýmum fyrir geðsjúka aldraða verið fjölgað úr tíu í 20 nýlega með sérstakri heimild. Það er dæmi um sérhæfð hjúkrunarrými sem er sérstaklega mikilvægt að halda til haga og var mjög mikið ánægjuefni að Mörkin skyldi óska eftir þeim heimildum.