149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

aðgangur fatlaðs fólks að réttarkerfinu.

369. mál
[17:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Já, það er af nógu að taka þegar kemur að því að uppfylla skyldur okkar gagnvart alþjóðasamningum eins og þeim sem hér um ræðir — og hér er um að ræða 2. mgr. 13. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það hefur sem betur fer ýmislegt verið gert til að standa við skuldbindingar Íslands í þessu sambandi. Liður í því að tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu er m.a. að fagstéttir réttarvörslukerfisins hljóti viðeigandi fræðslu og þjálfun í málefnum fatlaðs fólks; í aðgangi fatlaðs fólks til jafns við ófatlað fólk að réttarkerfinu felst einnig að meðferð sé vönduð þar sem metið er hvort fötlun, sakbornings eða brotaþola kalli á sérstakar ráðstafanir. Það verður að líta til ýmissa þátta í því sambandi.

Fatlaðir einstaklingar sem þurfa aðstoð við að gæta réttar síns geta í dag leitað til réttargæslumanna sem starfa samkvæmt lögum um réttindagæslu fyrir fatlað fólk og reglugerð um réttindagæslumenn. Um land allt starfa síðan svæðisbundnir réttindagæslumenn fatlaðs fólks og er skilyrði að þeir hafi þekkingu og reynslu af málefnum og réttindum fatlaðs fólks. Þessir réttindagæslumenn skulu fylgjast með högum fatlaðs fólks á sínu svæði og vera því innan handar við hvers konar réttindagæslu.

Í ársbyrjun 2017 skipaði ríkissaksóknari starfshóp um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða einstaklinga er að ræða — eða brotaþola. Meðal verkefna starfshópsins var að skoða atriði sem varða tilhögun skýrslutöku af fötluðum gerendum og þolendum við rannsókn mála og fyrir dómi, fræðslu og þjálfun lögreglumanna, ákærenda, dómara o.s.frv. Starfshópnum var falið að gera drög að verklagsreglum um meðferð ofangreindra mála.

Starfshópurinn skilaði skýrslu til ríkissaksóknara í júní 2018 og hún var kynnt ráðherra í október sl. Starfshópurinn leggur til að farið verði í heildarendurskoðun á reglum sem gilda um skýrslutökur af sakborningum og vitnum í lögum um meðferð sakamála í þeim tilgangi að bæta réttarstöðu fatlaðs fólks.

Á grundvelli þessarar skýrslu og að tillögu ríkissaksóknara hef ég tekið ákvörðun um að leggja það fyrir réttarfarsnefnd, sem er nefnd sem starfar fyrir dómsmálaráðherra við breytingu á réttarfarslöggjöfinni, að taka til skoðunar og vinnslu þær breytingar sem lagðar eru til á lögum um meðferð sakamála. Þá hefur ríkissaksóknari jafnframt gefið út leiðbeiningar til lögreglustjóra og annarra ákærenda um meðferð kynferðisbrotamála þegar um fatlaða sakborninga er að ræða eða brotaþola á grundvelli þessara tillagna starfshópsins.

Í þessari skýrslu eru svo frekari tillögur til úrbóta á þessu sviði, svo sem í tengslum við tölfræði sem halda ber ásamt tillögum um fræðslu um stöðu fatlaðra. Þær eru nú til skoðunar í dómsmálaráðuneytinu.

Þá má jafnframt nefna að í stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 er m.a. að finna aðgerð sem miðar að því að auka þekkingu lögreglu, ákæruvalds og dómskerfis við rannsókn ofbeldisbrota í þeim tilgangi að tryggja að fatlað fólk njóti verndar réttarkerfisins til jafns á við aðra. Í samræmi við þessa aðgerð stóð mennta- og starfsþróunarsetur lögreglunnar fyrir sérhæfðu fjögurra daga námskeiði í skýrslutökum af fólki með sérþarfir — með sérstaka áherslu á einhverfu. Þetta var vorið 2018.

Einnig var haldin ráðstefna 23. mars á síðasta ári í samvinnu við réttindavakt velferðarráðuneytisins með yfirskriftinni „Hvert er réttaröryggi fatlaðs fólks?“ Haldnar hafa verið fjölmargar ráðstefnur og þjálfun í grunnnámi rannsóknarlögreglumanna hefur einnig verið bætt. Það er mikil vitundarvakning í réttarvörslukerfinu almennt á sérþörfum fólks með alls kyns fatlanir.

Ég vil líka nefna að til umræðu hér á þingi er lagafrumvarp mitt um réttindi manna til að fá dómtúlk í einkamálum. Það varðar ekki sakamálin þannig að það er nú eitt mál sem er kannski umfram skyldu sem leiðir af þessum sérstaka samningi Sameinuðu þjóðanna. En ég vona að það fái jákvæða meðferð og fljóta og skjóta hér á þinginu. Það skiptir líka máli að tryggja mönnum þennan aðgang þegar um einkamál er að ræða.

Það er sérstaklega spurt hvort gerð hafi verið úttekt á stöðu fatlaðs fólks í fangelsum. Samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun hefur ekki verið gerð úttekt á því en aðgangur að aðbúnaði fanga sem notast við hjólastól er tryggður með sérstökum klefum á Hólmsheiði, Litla-Hrauni og fangelsinu á Akureyri. Þá reynir Fangelsismálastofnun eftir bestu föngum móti að mæta þörfum fatlaðra fanga sem þurfa sérstaka aðhlynningu eða aðbúnað í hverju tilviki fyrir sig.