149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

aðgangur fatlaðs fólks að réttarkerfinu.

369. mál
[17:19]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að þakka fyrir fyrirspurnina sem og svar hæstv. ráðherra við henni. Það hefur sem betur fer eitthvað verið að gerast í þessum málum frá því að ég stóð í þessari pontu einhvern tímann á árinu 2015, minnir mig að það hafi verið, þegar upp komu í þjóðfélaginu mál sem sneru að ofbeldi gegn fötluðum konum. Þá kom einmitt í ljós að til að mynda hafði aldrei verið haldið neitt námskeið sem dómarar höfðu haft aðgang að sem sneri að sérstöðu fatlaðs fólks.

Mig langar að fagna því að þá var tekið á málunum. Þeim var komið í ferli. Starfshópur er búinn að skila af sér, það er komin skýrsla og verið er að vinna úr henni núna. Ég fagna því sérstaklega, en langar að beina því til hæstv. ráðherra að í þeirri vinnu verði leitað til sérfræðinga í (Forseti hringir.) málefnum fatlaðs fólks sem hafa sérþekkingu, m.a. á því hvernig birtingarmyndir ofbeldis gegn fötluðu fólki eru.