149. löggjafarþing — 66. fundur,  18. feb. 2019.

aðgangur fatlaðs fólks að réttarkerfinu.

369. mál
[17:24]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég hef engar áhyggjur af því að ekki náist góð samstaða um breytingar og þróun í þessum efnum. Það þarf auðvitað að hafa í huga að vísindunum fleygir líka fram í þessum efnum. Menn átta sig kannski á nýjum takmörkunum einstaklinga með fatlanir sem þeir höfðu ekki áttað sig á áður að gætu skipt máli þegar kemur að samskiptum almennt, hvað þá í svona mikilvægum málum eins og á við í réttarvörslukerfinu.

Hér var spurt sérstaklega um gjafsókn fatlaðra. Um hana fer auðvitað eins og um gjafsókn allra. Tekið er tillit til tekna og þá skiptir ekki máli hvort það eru fatlaðir einstaklingar eða ekki, enda eru fatlaðir einstaklingar alls konar, efnamenn og aðrir sem hafa minna fé milli handanna. Það er því ekki skilgreiningaratriði á fötluðum að þeir hafi ekki efni á að reka sín dómsmál.

Reglur um gjafsókn eru hins vegar almennar og altækar og þær ná yfir fatlaða líka. Ég undirritaði held ég í síðustu viku reglugerð sem hækkar viðmiðunarmörk vegna gjafsóknarmála. Það gildir um alla. Það þarf að líta til lausna fyrir fatlaða þar, þá sérstaklega ef það eru einhver sérstök sjónarmið, sem ég þekki ekki, um það.

Þessi vinna heldur áfram og búið er að gera gott betur en að stofna starfshópa. Eins og ég lýsti hef ég óskað eftir því við réttarfarsnefnd að hún vinni að lagafrumvörpum um breytingar í þessum efnum. Þau munu líta dagsins ljós, einhver frumvörp sem lúta að þessu. Að sjálfsögðu kappkostum við að hafa í allri þeirri vinnu sérfræðinga til að leita til, til að búa þessu sem við best megum.

Spurt var um fjármagn. Kostnaður hefur ekki verið sérstaklega metinn af þessu, enda held ég að hér skipti mestu fræðsla, breytt vinnulag og verklag, eins og t.d. hjá dómstólum og lögreglu, (Forseti hringir.) sem á ekki kost á að vera, eins og maður segir, innan ramma. Þetta lýtur meira að verklagi og vitundarvakningu. En eitthvert fjármagn kann að vanta og þá kíkjum við á það í framhaldinu.