149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar.

[14:17]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég vildi í upphafi þakka hv. þm. Jóni Þór Ólafssyni fyrir að vekja máls á þessu máli með þeim hætti sem hann gerði í framsöguræðu sinni, sem mér fannst taka mið af hinum pólitíska veruleika sem við búum við í dag frekar en að vera fastur í deilu fortíðarinnar, vil ég meina, hvernig málum var háttað hér á kjörtímabilinu 2009–2013. Síðan hefur verið kosið þrívegis til Alþingis og margt breyst í hinu pólitíska umhverfi.

Ég held að þegar við ræðum verkefnið núna eigum við í staðinn fyrir að vera föst einhvers staðar á vetrinum 2012–2013 að ræða stöðuna eins og hún er í dag. Það finnst mér hæstv. forsætisráðherra gera, sem og hv. þm. Jón Þór Ólafsson, en aðeins minna var af því í ræðu hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur sem væri hægt að ræða við um þessi mál í löngu máli, en ég ætla að sleppa því að þessu sinni á þeim tveimur mínútum sem ég hef til ráðstöfunar. Ég fæ vonandi tækifæri til þess síðar. (Gripið fram í.)

Afstaða okkar til breytinga á stjórnarskránni er mismunandi. Hún er mismunandi milli manna og mismunandi eftir flokkum. Sú leið sem hæstv. forsætisráðherra hefur boðað hér gerir ráð fyrir ákveðinni málamiðlun. Með því er ekki sagt að allir séu 100% sammála um alla hluti, auðvitað ekki, en ég lít svo á að þegar formenn stjórnmálaflokkanna taka þátt í verkefni af þessu tagi séu þeir að skuldbinda sig til að vinna málin á þeim forsendum og í þeim farvegi sem þar er gert ráð fyrir. Svo geta menn haft þær prívatskoðanir að það eigi að gera hlutina einhvern veginn öðruvísi. En á meðan menn sitja við þetta borð og vinna málin þannig held ég (Forseti hringir.) að þeir ættu að einbeita sér að því og láta aðra ferla eða aðrar aðferðir við að fara í þessa endurskoðun eiga sig — að minnsta kosti á meðan.