149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

fullgilding á uppfærðum fríverslunarsamningi milli EFTA-ríkjanna og Tyrklands.

499. mál
[15:38]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég hendi þessu kefli bara til baka og segi: Takk kærlega fyrir þessi viðbrögð. Ég talaði hér fyrr í dag um kjördæmaviku og hvað það skiptir miklu máli fyrir þingmenn að komast út í kjördæmin, heyra í fólki í mismunandi umhverfi, sjá mál í öðru ljósi og finna mismunandi áherslur og það er þetta sem hv. þingmaður var í rauninni að lýsa, þetta er líka hluti þingmannsstarfsins innan veggja þingsins, í öllum þessum húsum, ef við lítum á stóru myndina, þessi vinna sem á sér stað í nefndum sem skiptir gríðarlega miklu máli upp á það hvernig við höldum utan um málin, fyrir lýðræðisframvindu, málaframvinduna. Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að stjórn á nefndunum og skipulag sé með þeim hætti, m.a. eins og við erum að upplifa núna í utanríkismálanefnd, að fólk geti komið og tjáð sig mjög opinskátt og komið sínum málum á framfæri. Eðlilega þá er hér þingræði og það er meiri hluti í þinginu og auðvitað finnum við fyrir því. Það sem skiptir máli er að við, stjórnarminnihlutinn — það er kannski ágætt að fara að kalla stjórnarandstöðuna líka stjórnarminnihlutann — getum komið málum okkar á framfæri, að þau séu sett á dagskrá. Það skiptir líka máli.

En stóra myndin í utanríkismálum er auðvitað mikilvæg og það er fagnaðarefni að fá hæstv. ráðherra Guðlaug Þór Þórðarson til okkar, gott að fá hann á fund nefndarinnar til að fara yfir þessi risastóru hagsmunamál sem við blasa í utanríkismálum þjóðarinnar hvort sem þau tengjast Brexit, hugsanlega nýjum viðskipta- og öryggissamningi við Bandaríkin eða mannréttindamálum ekki síst. Þessu vil ég sérstaklega fagna og hlakka til að mæta á fund nefndarinnar í fyrramálið.