149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

Landssímahúsið við Austurvöll.

538. mál
[17:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er til vitnis um þessa lausung, sem við sjáum kannski einkenna málflutning sumra ræðumanna sem hafa komið í það minnsta í andsvör, sem er að ganga yfir samfélagið í dag, að meira að segja hinir gömlu, kjarnföstu flokkar sem einu sinni voru festan í íslensku samfélagi, eins og Sjálfstæðisflokkurinn, eru nú að hverfa frá því og orðnir bara eins og hinir flokkarnir sem spretta upp úr grasrótinni, eða hvað á að kalla þetta, og þrífast á því að þjóna hagsmunum samfélagsmiðla eða eitthvað slíkt.

Mig langar því að velta upp við hv. þingmann hvort það geti verið að þetta sé svona stundar — hvað eigum við að segja? Ég ætla ekki að segja brjálæði, það er vitlaust orð, en einhvers konar stundaræði sem rennur á einn af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins að tala gegn þessari tillögu.

Það er annað sem mig langar að nefna. Það er rétt sem kom fram í þessum ræðustól að auðvitað er niðurstaða mennta- og menningarmálaráðuneytisins engin. Þetta er yfirklór sem þaðan hefur komið vegna þess að verktakinn bauð fram einhverja lausn sem minjayfirvöld stukku á. Hvort það var þannig að ráðuneytið þrýsti á að þessi niðurstaða yrði fengin, þ.e. beitti sína stofnun einhvers konar þrýstingi, veit ég ekki en við skulum ekki útiloka það, til að þurfa ekki að kveða upp úrskurð í málinu. Þá veltir maður fyrir sér: Til hvers eru menn að fara í þá vegferð? Til hvers að hafa þetta vald til að kveða upp úr ef menn treysta sér ekki til þess?

Annað sem mig langar að nefna: Er það rétt munað hjá mér, hv. þingmaður, að fjárveitingar til nýbyggingar Alþingis séu um 3 milljarðar, 3.000 milljónir? Að fenginni reynslu, ef við horfum á þær framkvæmdir sem farið hafa fram úr í borginni undanfarin ár, má reikna með að sú tala geti a.m.k. tvöfaldast eða bæst við hana umtalsverðar upphæðir. Það er svolítið erfitt að áætla tölu á eitthvað sem við vitum ekki hvað er fyrr en upp er risið. Þar af leiðandi getum við ekki heldur sagt hvers konar upphæðir væri um að ræða ef húsið er tekið (Forseti hringir.) eignarnámi eða samið um þetta hús sem er verið að byggja hér, öllum til ama.