149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[19:01]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka undir með hv. þingmanni. Það er ótrúlegt hversu lítil umræða hefur verið um kjarnorkuvopn á síðustu misserum. Ég er varla nógu gömul til þess að muna eftir kjarnorkuógninni sem þeir sem eru kannski kynslóðinni eldri en ég ólust upp við þar sem fréttir af yfirvofandi heimsendi voru upp á hvern dag og samdir hafa verið frægir dægurlagatextar um angistina og hræðsluna yfir því hversu alvarleg ógnin af kjarnorkuvopnum var. En ástæðan er ekkert minni núna, myndi ég telja. Eftir að kalda stríðinu lauk létti á ákveðinni spennu en hún hefur því miður verið að byggjast aftur upp. Það er núna þannig að Bandaríkin og Rússland — ég hef því miður ekki tölur um önnur kjarnorkuveldi, ég minni á að þau eru fleiri, en Bandaríkin og Rússland eru þau langsamlega stærstu — eru núna með yfir 1.800 sprengjur sem eru tilbúnar á, afsakið slettuna, frú forseti, „high alert status“. Þau eru tilbúin til að þeim sé skotið.

Hv. þingmaður setti þetta í tengsl við loftslagsmálin þar sem við hefðum þurft að bregðast við helst í gær. Hér erum við með vopn sem eru tilbúin ef ýtt er á einn takka, þá fara þau af stað. Þá er bara kjarnorkustríðið hafið, þannig að þetta er svo grafalvarlegt mál.