149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[19:03]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessi orð hv. þm. Steinunnar Þóru og viðbrögð hennar við því sem ég sagði áðan. Eins og hún talaði um sjálf hvernig þetta var — ég er fædd í upphafi 9. áratugarins og ég ólst upp við það að við vorum mjög meðvituð um þessa ógn og uppáhaldslögin mín með Sting og fleirum fjölluðu einmitt um þetta.

Mig langar þess vegna að beina þeirri spurningu til hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur: Telur hún að það sé kannski þörf á meiri vitundarvakningu um þetta í samfélaginu, þá kannski sér í lagi í menntakerfinu? En þó náttúrlega auðvitað án hræðsluáróðurs, það er auðvelt að snúa slíku á hvolf eins og við höfum séð í mannkynssögunni. En vitundarvakningu, svolítið eins og er núna í gangi með loftslagsmálin. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að þörf sé á því.

Ég tel að ástæðan fyrir því, mögulega, að fólk sé ekki jafn meðvitað og tali ekki jafn mikið um þetta í dag og áður sé út af því að það hefur einhvern veginn fallið í skuggann fyrir annarri pólitík og af því að hættan á þessu var mun minni, held ég, eftir að kalda stríðinu lauk á þessum tíma. En núna erum við bara eins og í vísindaskáldsögu, að þetta sé ekki raunverulegt, við erum kannski svolítið í afneitun. En það er algerlega kominn tími á að það hætti sem allra fyrst og þess vegna vona ég að þetta mál fái góðan og fljótan framgang hér á Alþingi. Og auðvitað er það ekki spurning. Það á bara að vera algjört bann við gjöreyðingarvopnum ef við ætlum okkur að búa hér áfram og afhenda börnum okkar þessa jörð.