149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[19:06]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir afdráttarlausan stuðning við málið. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Eins og ég kom inn á í niðurlagi ræðu minnar hafa 25 þingmenn sem sitja á Alþingi skrifað undir heit eða loforð þess efnis að vinna að því að kjarnorkuvopn verði bönnuð með alþjóðasamningi. Það er mikilvægt að við sem erum þessarar skoðunar tölum hátt og tölum skýrt og komum málinu á dagskrá. Það er jú alltaf eitt af stóru verkefnunum í pólitík, að koma málum á dagskrá og að fá þau í umræðu úti í samfélaginu.

Ég held að hræðsluáróður eigi alveg við í þessu tilfelli vegna þess að afleiðingin af því ef það brýst út kjarnorkustyrjöld er heimsendir. Það gerist mjög hratt. Það er bara mjög skelfilegt til þess að hugsa og fyrir mér er engin létt leið fram hjá því. Það er bara ömurleg, bláköld staðreynd máls og það er mikilvægt að við tölum mjög skýrt. Auðvitað getur framsetning eftir því við hvaða hóp maður er að tala hverju sinni skipt miklu máli. En þetta er grafalvarlegt mál og það er mjög athyglisvert að sjá að það eru löndin sem ekki búa yfir kjarnorkuvopnum sem eru að setja málið á dagskrá því að þó svo að tvö ríki sem eiga kjarnorkuvopn fari í stríð sín á milli (Forseti hringir.) hefur það áhrif á alla hina. Það skiptir öllu máli að við tölum hátt og að við tölum skýrt og að við komum málinu kýrskýrt á dagskrá.