149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[19:09]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í upphafi vil ég þakka fyrir ágætar leiðbeiningar — sem áttu sér sínar ástæður, ábyggilega. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir að leggja þessa tillögu til þingsályktunar fram. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hún gerir það og það er aðdáunarvert að hún skuli af þrautseigju vekja athygli okkar á þessum alvarlegu málefnum sem við gefum kannski ekki nægilega mikinn gaum. Við sofum á verðinum. Einhvern veginn er þetta svolítið fjarri okkur þó svo að þessi hrollvekja sé vakin upp annað veifið með myndefni frá þeim hörmungum sem áttu sér stað í Japan á sinni tíð.

En það er áhyggjuefni, eins og hv. þingmaður benti á, að vopn sem hafa verið framleidd, skaðræðisgripir af þessu tagi sem eru framleiddir, eru yfirleitt notuð í einhverju samhengi einhvern tíma. Menn eru enn að bardúsa við það einhvers staðar austur í Asíu, í bílskúrum eða einhvers staðar, og hinn elskaði og dáði leiðtogi í Norður-Kóreu er að föndra við að búa til einhvers konar vopn. Hann vill meina sjálfur að það séu kjarnorkuvopn en menn bera einhverjar brigður á það. Kim Jong-un ber sig vel og telur sig vera að gera vinna stórvirki í kjarnorkumálefnum.

Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þingmann: Merkjum við að við séum að vinna einhver lönd í þessum áróðri fyrir banninu? Hún nefndi að þjóðunum fjölgar. En í samskiptunum við kjarnorkuveldin — er skilningur fyrir banni að vaxa?