149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

samningur Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum.

57. mál
[19:11]
Horfa

Flm. (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg spurning sem hv. þingmaður veltir hér upp og snýst um það hvort við séum að vinna þau ríki sem mestu ráða í þessum málum á okkar band, þ.e. kjarnorkuveldin. Enn sem komið er hefur ekkert kjarnorkuveldi og ekkert aðildarríki NATO gerst aðili að þessu banni. En líkt og ég sagði áðan eru einhverjar umræður í gangi á Spáni en ég veit ekkert hvert það mun leiða.

Þetta er gríðarlega mikið áhyggjuefni. Það er staðreynd að hernaðarstefna NATO byggist á því að bandalagið áskilur sér rétt til beitingar kjarnorkuvopna að fyrra bragði. NATO er hernaðarbandalag sem er m.a. bandalag um kjarnorkuvopn.

Forsvarsmenn ICAN, þeir sem unnu að því að þessi samningur yrði til á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, hafa lagt áherslu á að það að ríki gerist aðili að þessum samningi sé ekki sjálfkrafa úrsögn úr NATO eða andstaða við hernaðarbandalagið NATO. En einhverra hluta vegna hefur það enn sem komið er verið túlkað þannig.

Þá segi ég: Þá er enn fremur verk að vinna vegna þess að hvort sem við erum í hernaðarbandalagi eða ekki hljótum við að áskilja okkur réttinn að vilja vera á móti gjöreyðingarvopnum.