149. löggjafarþing — 67. fundur,  19. feb. 2019.

velferðartækni.

296. mál
[19:36]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hv. flutningsmanni Höllu Signýju Kristjánsdóttur fyrir að mæla fyrir þessari þingsályktunartillögu. Hún ber vott um framsýni og líka meðvitund um þær samfélagslegu breytingar sem við göngum í gegnum og fram undan eru. Þessi tillaga rímar giska vel við þá umræðu sem við áttum í þingsal í gær, sérstaka umræðu um fjarlækningar og fjarheilbrigðisþjónustu og kallast líka á við þau viðhorf sem fram komu í máli flestra þingmanna sem tóku þátt í umræðunni.

Það kemur fram í greinargerð með þessari þingsályktunartillögu að hugtakið velferðartækni sé ættað frá Norðurlöndum. Einhverjum kann að þykja þetta svolítið kalt heiti, velferðartækni, en eitthvað verður þetta að heita og ekki er óeðlilegt að velferðarþjónustan hagnýti sér nýja tækni og leiðir til að bæta þjónustuna því að þetta er bara einn þáttur í því að gera þjónustuna enn betri, ekkert síður mannúðlegri og markvissari. Þetta eru auðvitað þættir sem hafa verið forgangsverkefni á Norðurlöndunum öllum meira og minna og þau eru komin langtum framar okkur. Við sitjum eftir og getum gert miklu betur að þessu leyti í okkar strjálbýla, stóra landi þar sem hluti okkar þegna býr til sveita og gjarnan er það fullorðið fólk sem býr í dreifbýlinu. Það er nú þannig.

Velferðartækni hefur verið, eins og flutningsmaður kom inn á, áhersluatriði í formennskutíð Noregs í Norðurlandaráði og Noregur hefur talað mjög fyrir þessu máli. Ómurinn hefur borist til Íslands, því er ekki að neita. Við þekkjum hugtakið og þekkjum viðfangsefnið, við tölum eitthvað um það en okkur verður lítið úr verki.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar eru þó lögð nokkur orð í nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og þar er þessi tækni orðuð, fjarlækningar. Það er vel. Fjarlækningar ná kannski ekki nægilega vel utan um þetta viðfangsefni. Þetta er fjarheilbrigðisþjónusta sem getur náð yfir ýmsa aðra þjónustu á heilbrigðissviði og á félagslegu sviði svo sem líka. Það má líka geta um það, og það er ánægjulegt hvað sem mönnum finnst um byggðaáætlanir sem gerðar eru, að þær eru stundum dálítið opnar og fljótandi en í þeirri byggðaáætlun sem við höfum nýverið samið, sem gildir fyrir árin 2018–2024, eru býsna vel skilgreind nokkur atriði, þar á meðal fjarheilbrigðisþjónusta. Þar eru sett skýr markmið, þ.e. að bæta heilbrigðisþjónustuna með því að nýta nýjustu tækni og fjarskipti við framkvæmd þjónustu. Þar með verði það einn liður í því að bæta eða jafna aðgengi almennings að heilbrigðisþjónustu og jafnvel sérhæfðri þjónustu hvar sem menn búa. Þá erum við ekki eingöngu að tala um lækna og hjúkrunarfræðinga, við erum að tala um talmeinafræðinga, sálfræðinga og fleiri.

Síðan verður hin rafræna miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu og það er ekki bara fyrir sjúklinga heldur líka fyrir annað fagfólk sem býr kannski fjarri þeim stöðum þar sem sérfræðingar starfa. Þetta á að vera komið í gang og á fullan skrið, framkvæmdaraðili og sá aðili sem á að stjórna þessu er Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar sem er starfrækt hér í Reykjavík. Við vonumst til að sprotarnir nái að skjóta rótum úti um landið. Það á að gerast í samstarfi við heilbrigðisstofnanir, landshlutasamtökin og einstök sveitarfélög um landið allt. Í þetta eru settir peningar, 140 milljónir, og ég gat um það í gær í minni ræðu að þetta væru ekki nægilega miklir peningar, menn væru með þessu að sýna lit, það kostaði talsvert að koma þessu á laggirnar en ekki mjög mikla peninga. Hins vegar þarf að skapa um þetta umgjörð, þ.e. hvernig greiðslufyrirkomulaginu sé háttað og hverjir ætli að annast þjónustuna. Það þarf að skilgreina það vel. Þeir aðilar sem veita þjónustuna eða eru á hinum endanum þurfa ekki endilega að vera í Reykjavík, þeir geta verið á Akureyri eða á Ísafirði ef þekkingin er þar, þeir geta verið á Akranesi eða Suðurnesjum, hvar sem er, í útlöndum þess vegna.

Þetta eru allt góð markmið en mér finnst fara heldur lítið fyrir innleiðingunni því að samkvæmt tillögum starfshóps sem ráðherra skipaði til að fjalla um fjarheilbrigðisþjónustu, fjarlækningar, og hefur skilað af sér á, samkvæmt tímaplani, innleiðing þeirra að vera í fullum gangi á þessu ári. Ég verð lítið var við það, a.m.k. í mínu kjördæmi sem er víðfeðmt og strjálbýlt á köflum. Þar er mikið landbúnaðarhérað og dreifbýli og væri kjörið til innleiðingar á lausnum sem þessum.

Frú forseti. Á komandi árum eru allar líkur á því að við leggjum stöðugt meiri áherslu á sjálfstæða búsetu einstaklinga á eigin heimili þrátt fyrir að viðkomandi búi hugsanlega við fötlun eða skerta hreyfifærni vegna aldurs eða áfalla. Það má segja að NPA-hugmyndafræðin sé angi af þessu og að þessi stuðningur verði veittur með mjög markvissum hætti. Við eigum ríka hefð á Íslandi fyrir því að vista fólk á stofnunum. Það er eiginlega ljóður á okkar ráði og við þurfum að fara að snúa þessu við. Sú kynslóð sem er að vaxa úr grasi og verður eldri borgarar innan fárra ára mun ekki una þeim lausnum sem eldri borgarar nútímans hafa unað við.

Um ástæðu þess að við höfum valið þessa leið er ekki gott að segja. Vegna hvers flytur fólk af sínu eigin heimili á stofnun? Það er auðvitað krefjandi spurning sem við eigum að velta fyrir okkur. Það má segja að sé í fyrsta lagi vegna þess að heilsan brestur og það er metið að viðkomandi geti ekki búið heima; það er óhentugt húsnæði; félagsleg einangrun og síðast en ekki síst öryggisleysi. Það má vinna verulega með alla þessa þætti, óhentugt húsnæði, félagslega einangrun má rjúfa með ýmsu móti og öryggisleysi líka. Það má vinna á þessum þáttum og það eigum við að gera. Við getum einmitt hagnýtt svona lausnir til þess. Við Íslendingar eigum mýmörg tækifæri á þessu sviði og eigum að þaulnýta þau. Þau eru jafnan farsælli fyrir viðkomandi, gera meiri kröfur til manns, en hluti af lífinu er að baksa og hafa fyrir hlutunum.

Þetta er líka hagkvæmari lausn fyrir samfélagið í heildina. Í þeirri greinargerð sem fylgir þessari tillögu eru tekin dæmi frá Álandseyjum sem er lítið eyjasamfélag sem ætti að höfða til okkar með 40.000 íbúa. Þar hefur gengið á ýmsu og við eigum að læra af því. Þessari umbreytingu verður ekki komið á yfir nótt. Við þurfum að aðlaga okkur að þessu, við erum að aðlaga skjólstæðinga okkar að þessu og við þurfum að þjálfa starfsfólk síðast en ekki síst.

Frú forseti. Tíminn rennur út eftir fáeinar sekúndur. Þessi tillaga er komin fram á ágætum tímamótum, nú þegar við höfum til umfjöllunar í þinginu tillögu ráðherra að heilbrigðisstefnu. (Forseti hringir.) Það er beinlínis ætlan þeirra sem að tillögunni standa að hún nýtist með beinum hætti við lokagerð þeirrar stefnu og verði hluti af aðgerðaáætlun sem óhjákvæmilega hlýtur að fylgja nýrri heilbrigðisstefnu. Framkomin þingsályktunartillaga af þessu tagi er fagnaðarefni.