149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

staðarvalskönnun fyrir nýjan flugvöll á Vestfjörðum.

152. mál
[17:09]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Mér fannst ég vera — ég ætla ekki að segja tilneydd — en mér fannst mikilvægt að koma upp og fagna tillögu hv. þm. Guðjóns S. Brjánssonar, Haralds Benediktssonar og Höllu Signýjar Kristjánsdóttur, sem er vonandi bara fyrsta skrefið í að tryggja öruggan og traustan flugvöll á Vestfjörðum.

Það er þó ekki aðeins að hann yrði öruggari og traustari heldur er þetta líka einfaldlega svo mikið framfaramál fyrir það svæði, sem því miður hefur allt of lengi, bæði í lofti og á landi, átt við djöfullegar samgöngur að glíma, svo það sé bara sagt hreint út.

Eins og kemur fram í greinargerðinni eru líka mjög mikil tækifæri sem fylgja því að fá nýjan flugvöll. Þar má t.d. nefna ferðaþjónustuna og sömuleiðis ekki síður að með auknu laxeldi á Vestfjörðum gætu einmitt opnast tækifæri til að fljúga beint með fiskinn í stað þess að flytja hann á landi og minnka þar með álagið á vegunum.

En það er ekki síst, og líklega bara mikilvægast, að þetta er tækifæri til að tryggja bætta og öruggari þjónustu við íbúana sem treysta mjög á flugið, enda eru flugsamgöngur í raun þeirra almenningssamgöngur. Vissulega er hægt að fljúga sjónflug og í Skutulsfirði er alltaf flogið sjónflug en ég hugsaði þegar ég var að undirbúa þessa ræðu að það væri líka alveg pínkulítil eftirsjá að flugi í Skutulsfjörð og inn Djúpið. Ég man sérstaklega eftir einu flugi þar sem ég flaug með lítið, ókunnugt barn sem ég bauðst til að fljúga með, og það var óvenjumikill þrýstingur í Djúpinu og ég hef aldrei verið jafn glöð að fljúga með barn af því að ég var með hjartað í maganum á meðan barnið hrópaði upp yfir sig: Vúhú! Við erum í rússíbana! Það hjálpaði mikið. En staðreyndin er sú að flug í Skutulsfjörð er stundum vandasamt og ekki bara vegna veðurs heldur líka vegna birtuskilyrða, sérstaklega yfir vetrartímann, sem eru það erfið að ekki er hægt að fljúga t.d. yfir háveturinn nema í þriggja til fjögurra tíma glugga. Og bara þegar ekki er leiðinlegt veður.

Þetta er gríðarlega mikið öryggisatriði og eins og komið hefur verið inn á af fleiri hv. þingmönnum er þetta líka gríðarlega mikilvægt atriði fyrir sjúkraflug, björgunaraðila o.fl. Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að farið sé í þetta staðarval. Mig langar að nefna aðeins það sem hv. þm. Þórunn Egilsdóttir kom inn á varðandi raunhæfi þess að skoða að byggja nýjan flugvöll eða lendingarstað á Vestfjörðum. Ég vil minna á að samgöngur á landi og í lofti eiga ekki að vera annað hvort. Það á ekki að útiloka hvort annað heldur eigum við einmitt að horfa til þess að byggja upp öruggar samgöngur, hvort sem er í lofti eða á landi.

En ég ætla svo sem ekki að orðlengja þetta. Ég hvet hv. þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd til að vinna málið hratt og örugglega. Með því er ekki verið að ákveða að byggja nýjan flugvöll heldur einfaldlega að taka fyrsta skrefið og kanna raunhæfi þess, taka fyrsta skrefið í að meta möguleikana. Ég held að það geri engum illt að taka það skref þótt vissulega voni ég í hjarta mínu að þetta verði einungis fyrsta skrefið af mörgum og að innan skamms munum við sjá nýjan flugvöll á Vestfjörðum.