149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[17:54]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Aðeins varðandi styrkina og upphæðina, að sjálfsögðu er hægt að fara yfir það innan nefndarinnar hvort ástæða sé til að færa þetta niður í kannski fjóra mánuði eða tæpa fimm mánuði eins og í Danmörku. Í mínum huga er í sjálfu sér ekkert athugavert við að það verði skoðað innan nefndarinnar.

Upphæðin sjálf er sú sama og námsmenn fá í fæðingarorlof á mánuði og það er alveg hægt að skoða innan nefndarinnar. Ég er opinn fyrir því að styrkja konur í þessum aðstæðum á annan hátt og á allan þann hátt sem hægt er að gera. Það væri bara gott að fá hugmyndir frá hv. þingmanni hvað það varðar. Grundvöllurinn er sá að þessar konur sitji við sama borð og aðrar konur þegar kemur að fæðingarorlofsgreiðslum.