149. löggjafarþing — 68. fundur,  20. feb. 2019.

fæðingar- og foreldraorlof.

257. mál
[18:31]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég greindi ekki beint spurningu í andsvarinu en ég tók eftir því að hv. þingmaður ítrekaði að ekki stæði til að þvinga konur til að ganga með börn sem þær vildu ekki ganga með. Ég hef hvergi heyrt það af orðum hv. þingmanns og hef ekki lesið það út úr þessu frumvarpi að einhvern veginn væri hægt að þvinga konur til að ganga með börn. Hins vegar finnst mér verið að setja óeðlilegan þrýsting á konur í því samhengi sem ég hef nefnt. Ég vonaðist eiginlega til þess að hv. þingmaður væri að koma upp til þess að svara því hvort hv. þingmanni finnist að konur ættu yfir höfuð að fara í þungunarrof ef þær vilja ekki ganga með barn eða hvort honum finnist að verði konur þungaðar, eða barnshafandi eins og hv. þingmaður lýsir svo áhugavert, beri þeim að hans mati siðferðisleg skylda til að ganga með barnið og gefa það fólki sem vill eiga börn.