149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir o.fl.

542. mál
[11:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum, sérlega hvað varðar stjórnvaldssektir.

Megintilefni frumvarpsins er þörf fyrir sterkari úrræði til að tryggja að farið sé að lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um meðhöndlun úrgangs. Þá er mikilvægt að komið sé í veg fyrir að rekstraraðilar geti hagnast á því að fara ekki að ákvæðum laganna. Því er brýnt að viðurlögum sé beitt við slíkum brotum. Hins vegar er ljóst að skilvirkasta leiðin til að farið sé eftir ákvæðum laganna er ekki í öllum tilvikum sektir eða önnur viðurlög sem ákveðin eru af lögreglu eða dómstólum. Með því að taka upp heimildir stjórnvalda, sem fara með eftirlit með framkvæmd viðkomandi laga, til að leggja á stjórnvaldssektir er betur tryggt að leyfisskyldir rekstraraðila fari að lögum. Gera má ráð fyrir að slíkar heimildir hafi varnaðaráhrif, auk þess sem sá aðili sem fengið hefur stjórnvaldssekt fyrir tiltekið frávik í rekstri er líklegri til þess að fara framvegis eftir viðkomandi lögum.

Auk áðurgreinds eru gerðar nokkrar breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir með hliðsjón af reynslu af framkvæmd þeirra.

Aðeins meira um stjórnvaldssektir. Í frumvarpinu er lagt til að Umhverfisstofnun hafi heimild til þess að leggja á stjórnvaldssektir við brotum gegn lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum um meðhöndlun úrgangs. Stjórnvaldssektir fela í sér refsikennd viðurlög við brotum gegn lögum og verður þeim almennt aðeins beitt við alvarlegri brotum. Í frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að leggja á stjórnvaldssektir við tilteknum brotum, svo sem að starfa án starfsleyfis. Mikilvægt er að álagning stjórnvaldssekta verði með samræmdum hætti og því er lagt til að einungis Umhverfisstofnun hafi slíka heimild. Ljóst er að stofnunin hefur yfir að búa víðtækri þekkingu og reynslu sem nýtist vel við slíka ákvarðanatöku og hefur til að mynda heimild á grundvelli efnalaga til beitingar stjórnvaldssekta.

Í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er að finna ákvæði er veita ráðherra heimild til að veita tímabundna undanþágu frá kröfu um starfsleyfi. Þessi heimild hefur verið nýtt m.a. þegar eldra starfsleyfi hefur runnið út á meðan umsókn um endurnýjun starfsleyfis hefur verið til meðferðar og því áður en unnt hefur verið að gefa út nýtt leyfi. Til aukinnar skilvirkni er lagt til að útgefanda starfsleyfis verði heimilt að framlengja starfsleyfi tímabundið á meðan nýtt starfsleyfi er í vinnslu, hafi öll tilskilin gögn borist með umsókn.

Í frumvarpi þessu er lögð til breyting í tengslum við skyldu rekstraraðila til að skila grænu bókhaldi. Verði frumvarpið að lögum mun tilteknum rekstraraðilum verða gert skylt að skila árlega til Umhverfisstofnunar tilteknum upplýsingum, m.a. um losun mengandi efna frá hverri starfsstöð og um hráefnanotkun. Markmiðið er að fá betri og ítarlegri upplýsingar frá þeim rekstraraðilum þannig að til verði betri og marktækari upplýsingar um losun og hráefnanotkun á landinu. Einnig er markmiðið að samþætta og einfalda skil frá rekstraraðilum til stjórnvalda.

Í frumvarpinu er lagt til að heilbrigðisnefnd geti ákveðið að fela framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits og tilteknum heilbrigðisfulltrúum heimild til fullnaðarafgreiðslu mála í einstökum málaflokkum. Slíkar ákvarðanir verði þó háðar samþykki sveitarstjórna. Þá er lagt til að heilbrigðisnefnd verði skylt að birta árlega rafræna skýrslu um starfsemi sína.

Í þeim tilgangi að auka skýrleika eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á orðalagi ákvæða laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sem kveða á um þvingunarúrræði. Þá er lögð til hámarksfjárhæð dagsekta og að þær falli ekki niður þrátt fyrir að málsaðili uppfylli skyldur sínar síðar. Tilgangur þess er að auka vægi dagsekta sem þvingunarúrræðis, enda er rekstraraðili líklegri til þess að grípa til aðgerða til úrbóta liggi fyrir að dagsektir falli ekki niður og komi til greiðslu.

Í frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir varðandi undirbúning á gjaldskrám sveitarfélaga að ekki þurfi að afla umsagnar hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Fela gildandi lög í sér ákveðinn tvíverknað þar sem tillaga um gjaldskrá kemur frá heilbrigðisnefnd og því óþarfi fyrir sveitarstjórn að senda tillöguna til heilbrigðisnefndar. Þá eru lagðar til breytingar á gjaldtökuheimildum Umhverfisstofnunar og heilbrigðisnefnda sem fela í sér aukinn skýrleika.

Í frumvarpi þessu eru einnig lagðar til nokkrar smávægilegar breytingar á lögum vegna annarra laga sem tekið hafa gildi eftir gildistöku laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Lög þessi hafa leitt til þess að þörf er á að lagfæra lagatilvísanir og skýra orðalag.

Að lokum er lögð til í frumvarpinu ein breyting á lögum um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum til þess að endurspegla nýlega breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir varðandi skráningarskyldu. Að mati ráðuneytisins mun frumvarpið ekki hafa í för með sér kostnaðaráhrif fyrir ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég hef hér rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.