149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

sjúkratryggingar.

513. mál
[15:42]
Horfa

Ásgerður K. Gylfadóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka 1. flutningsmanni fyrir framlagningu þessa frumvarps. Ég er mjög ánægð með að hafa náð inn á lista meðflutningsmanna á þessu máli, því að þetta er mál sem stendur hjarta mínu nærri og við Framsóknarmenn höfum talað um; það er gott að hafa náð að vera með. Í raun er verið að bera í bakkafullan lækinn því að það er svo margt sem sagt hefur verið í þessari umræðu sem ég hefði viljað segja, en fínt að ná að bæta nokkrum aukapunktum hér inn.

Það er nauðsynlegt að bæta aðgengi að sálfræðiþjónustu og með þessari aðgerð, með því að það verði hluti af greiðslu almannatrygginga, er verið að bæta aðgengi að fagþjónustu. Hafist hefur verið handa við að manna heilsugæslurnar sálfræðingum en það gengur verr á landsbyggðinni en hér á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir rúmu ári stóð til að gera samning í Sveitarfélaginu Hornafirði við sálfræðing í gegnum fjarþjónustu. Það endaði með því að hnökrar komu upp þar sem landlæknisembættið gat ekki samþykkt þann tæknibúnað sem átti að nýta. Það skýtur svolítið skökku við árið 2017 eða 2018 að við höfum ekki verið tilbúin undir það. Það tafði verkefnið en það er komið af stað núna og fyrstu skrefin hafa verið stigin. Það er gott að það er farið af stað, maður varð svolítið dapur þegar þetta gerðist. Þarna var tæknin komin og fólk sem var tilbúið til að sinna starfinu. Þessir sálfræðingar voru að sinna einstaklingum í sínu heimahéraði, en þegar um er að ræða opinberan aðila, aðila að samningi, var kerfið ekki nógu gott og þurfti að rannsaka það betur. En það er alla vega farið af stað og það er gott.

Sálfræðingar eru mjög góð viðbót við teymisvinnu á heilsugæslunni. Eins og kemur fram í umræðunni ætti slík þjónusta að vera í boði á hverri einustu heilsugæslustöð og standa fólki á öllum aldri til boða. Það hefur verið komið inn á, og er mjög vel greint frá því í greinargerðinni, þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir varðandi andlega vanlíðan og geðræn vandamál hjá ungu fólki. Kannanir sýna að það er mikil aukning kvíða og þunglyndis og sjálfsvígshugsana hjá ungu fólki og við þurfum að bregðast við. Þarna erum við að koma til móts við þau frá 18 ára aldri með greiðsluþátttöku og auknu aðgengi.

Ég held að við þurfum að beina augunum meira að forvörnum, að leggja eitthvað af þeim peningum sem munu sparast til lengri tíma við að nýta sálfræðinga innan heilsugæslunnar í forvarnirnar. Þær eru í raun fyrsta stigið og eiga að vera frá leikskóla og upp úr. Ég veit að það er verið að vinna gott starf víða en við þurfum að setja fókusinn meira á þetta. Við þurfum líka að muna eftir því að í könnunum, t.d. frá Rannsóknum og greiningu sem gera kannanir reglulega í grunnskólum landsins á öllum íslenskum börnum, kemur fram að meiri hluti ungmenna á Íslandi finnur ekki fyrir vanlíðan eða kvíða eða þunglyndi að staðaldri, en það koma auðvitað upp tímar í lífi þessara krakka. Og svo eru það spurningarnar: Hefur þú einhvern tímann hugsað um að taka líf þitt, eða hefurðu gert eitthvað að því marki, sjálfsvígstilraun eða annað slíkt? Ungt fólk er mikið að spá í lífið og tilveruna og umræðan er orðin mun opnari en hún var fyrir t.d. 20 árum, sem betur fer. Ég starfaði á geðdeild Landspítalans á móttökugeðdeild fyrir 20 árum, á Kleppi. Það voru miklir fordómar gagnvart geðrænum sjúkdómum. Breytingin sem hefur orðið á þessum 20 árum er alveg gífurleg og bara til góðs. Nú mæti ég á ungmennaþing með ungu fólki og spjalla við þau og þau segja: Við þurfum sálfræðing í skólana, við viljum geta talað um það þegar við erum kvíðin og þegar við erum í ástarsorg eða þegar okkur líður illa — og það er verið að tala um samfélagsmiðlana og það allt saman. Við viljum fagfólk til að ræða þessa hluti við. Ef ungt fólk hefði talað svona fyrir 20 árum hefði maður bara orðið steinhissa. Að sjálfsögðu gerði einhver það, en ekki í eins miklum mæli og gert er í dag. Þessi aukna tíðni sem mælist er kannski vegna þess að umræðan er opnari og þessar hugsanir koma betur fram. Það er minna um unglingadrykkju og annað slíkt. Krakkar leituðu í það á sínum tíma til að deyfa sig og takast á við sína vanlíðan, en nú erum við að kalla á fagfólk sem er bara gott, frábært.

Mig langar að koma aðeins inn á tækifærin til framtíðar, tækifæri ungs fólks. Hv. þm. Halldóra Mogensen kom inn á umræðu um tækifæri og talaði um að ungt fólk sæi færri tækifæri í framtíðinni. Tækifærin eru einmitt svo mörg, eða þannig hugsa ég það. Þegar við vorum ung, við sem erum í eldri kantinum hér inni, fór maður í menntaskóla og svo í háskóla og margir fetuðu í fótspor foreldra sinna, fóru leið sem þau þekktu. Í dag er umræðan um fjórðu iðnbyltinguna, að störfin sem eru í boði í dag verði ekki til eftir tíu ár eða hvað það er. Allur heimurinn er undir. Þú getur farið í nám hvar sem er og þú getur jafnvel skapað þína eigin námslínu innan framhaldsskólans. Það veldur líka óöryggi að þú þurfir að móta framtíð þína sjálfur, að það sé algerlega þitt. Það getur valdið óöryggi og kvíða. Ég held að við þurfum líka svolítið að taka utan um þau á þessu sviði. Það eru tvær hliðar á krónunni.

Forvarnirnar — það er verið að vinna með mörg þeirra mála í skólakerfinu og í samfélaginu. Mig langar til að koma inn á fræðsluna í skólanum. Kennarar, leikskólakennarar, skólahjúkrunarfræðingar eru öll að vinna góða vinnu, en ég held að það sé gott að bæta sálfræðingi inn, þó þeir séu auðvitað í skólunum líka. Úti á landi koma sálfræðingar í einhverja daga í mánuði, eru ekki partur af skólaliðinu, af starfsfólki skólans, þannig að kannski myndast ekki þetta sama flæði á milli í teymisvinnunni. En þarna koma forvarnirnar sterkar inn.

Með þessu frumvarpi, ef það verður að lögum og sálfræðiþjónusta verður partur af almannatryggingum, er stigið risaskref, gott skref. Ég vona að við tökum höndum saman. Ég vona — ég tek undir með hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur, ég held að hún hafi sagt það, eða alla vega túlka ég það þannig — að þessi vinna í velferðarnefnd verði góð og gefandi. Mann langar pínulítið að sitja í velferðarnefnd þessa dagana með heilbrigðisstefnuna, með velferðartækni — það eru stórar vörður fram undan, þetta eru góð mál.