149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

tekjuskattur.

84. mál
[16:40]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka greinargóð svör frá hv. þingmanni. Ég les þetta þannig að verið sé að afnema hér rúmmálsreglu sem er í lögunum núna, en rúmmálsreglan sem er í lögum núna á ekki við þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota. Hún tekur aldrei gildi, þessi rúmmálsregla, nema þegar um er að ræða íbúðarhúsnæði sem þú býrð ekki í sjálfur, t.d. ef þú átt fleiri eignir, ert að leigja þær út, þá tekur hún gildi. Með þitt eigið íbúðarhúsnæði eða þinn eigin sumarbústað sem þú ert ekki að leigja út tekur þessi rúmmálsregla aldrei gildi.

Nú er verið að fella þetta alveg út þannig að þó að þú eigir fjölmargar eignir og sumarbústaði og sért að leigja þá út þá þarft þú ekki að standa skil á skatti af söluhagnaði þeirra eigna.