149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[16:59]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessari umræðu. Þó að ég sé ekki endilega sammála öllu sem kemur fram í tillögu hv. þingmanna er samt sem áður, að því er ég tel, margt í henni sem við þurfum að ræða. Við þurfum að taka þessa umræðu, ekki bara út frá eignarhaldshugmyndinni og því öllu saman heldur líka út frá loftslagsmálum. Eins og kemur fram í greinargerðinni eru gríðarlegar auðlindir á þessum jörðum og staðreyndin er sú að hvort sem okkur líkar betur eða verr eru auðmenn að safna auðlindum víðs vegar um heiminn og við Íslendingar höfum ekki farið varhluta af því.

Það sem mig langaði hins vegar að velta upp í þessu samhengi og spyrja hv. flutningsmann, Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, um er hvort þið hafið velt því eitthvað fyrir ykkur hvort jafnvel væri ástæða til að vera ekkert að takmarka uppkaupin eingöngu við erlenda aðila heldur bara koma í veg fyrir uppkaup á landi yfir höfuð. Ég er tvístígandi gagnvart söfnun á landi, hvort sem það er íslenskra auðmanna eða erlendra, mér finnst þjóðernið í sjálfu sér ekki vera stóra málið í því samhengi. Þess vegna hefði ég áhuga á að heyra afstöðu hv. flutningsmanns til þess.