149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[17:11]
Horfa

Álfheiður Eymarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka svarið. Varðandi þennan skilning á uppkaupum er einmitt í markmiði b-liðar talað um almenn viðmið um heildareign á landi sem ætti að vera heimil fyrir sama aðila. Þá datt mér í hug kvótakerfið, því að þar má einn lögaðili vera með á eigin hendi 12% hámarkshlutfall af heildarkvóta. Það yrði þá ansi mikið flæmi ef við myndum miða við þessi 12% hér á Íslandi. Þetta þarf að ræða mjög vel.

Mig langar hins vegar að skýra hér þá hugmynd sem mér hugnast best og fá viðbrögð flutningsmanns við henni. Skipulagsvald er í höndum sveitarfélaga og sveitarfélögum væri í lófa lagið að skilgreina jarðspildur hér og þar með búseturétti, með landnýtingu og ýmsum öðrum kvöðum, til að koma í veg fyrir að eitthvað gerist á landinu okkar, á jörðunum okkar, sem er óæskilegt, hvort sem það varðar erlenda eða innlenda aðila.