149. löggjafarþing — 69. fundur,  21. feb. 2019.

endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi.

184. mál
[17:35]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka flutningsmönnum og framsögumanni þessarar ágætu þingsályktunartillögu sem þingmenn Vinstri grænna leggja hér fram. Með henni er verið að koma á dagskrá enn einu sinni máli sem er orðið aðkallandi, hefur verið mikið rætt um og skiptir okkur gríðarlega miklu máli sem þjóð. Við erum að tala um þingsályktunartillögu um endurskoðun á lagaumhverfi er varðar uppkaup á landi. Sett eru fram fjögur skýr markmið með endurskoðuninni sem felast m.a. í því að setja skýrar reglur sem miði að því að koma í veg fyrir uppkaup erlendra aðila, sem ekki hafa hér lögheimili og fasta búsetu, á landi. Þetta er ágætismarkmið en þó vil ég nálgast þetta mál eins og fleiri þingmenn hafa komið að, að kannski skipti þjóðernið ekki beint máli heldur tilgangurinn, hvernig eigi að nýta landið, hvernig við ætlum að fara inn í það. Vissulega hafa líka íslenskir aðilar keypt upp mikinn hluta landsins.

Annað markmið er að huga að almennum viðmiðum, svo sem landstærð, nýtingu landgæða og fjölda landareigna sem heimilt er að sé á hendi eins og sama aðila. Það styður við hitt sem ég talaði um áðan.

Þriðja markmiðið horfir til umhverfissjónarmiða og ákvæða um almannarétt í allri lagaumgjörð og tekur mið af sérstökum aðstæðum. Þá erum við að tala um það sem er í byggð, landbúnað, óbyggðir og svo allt annað í kringum það.

Loks er markmið um að tryggja samræmi milli laga og reglugerða.

Þessu máli fylgir svo ákaflega ítarleg og góð greinargerð eins og þingmanna Vinstri grænna er von og vísa. Það er farið nákvæmlega í söguna og í raun er mjög fróðlegt að lesa málið hér og greinargerðina sem því fylgir.

Nú er staðan þannig að æ fleiri átta sig á því að við þurfum að ná utan um þessi mál. Ekki hafa allir sem hafa keypt bújarðir og land og keypt mikið af því gert það af einhverjum annarlegum hvötum, frá því er langur vegur. Margir hafa komið inn í samfélögin og átt þar góð samskipti, lagt áherslu á að jarðir séu í búskap áfram, viljað stuðla að því og jafnvel gert fólki kleift að taka við búum og byggt upp húsnæði og annað. Það er bara vel og það er gott. Engu að síður horfum við fram á að landið er kannski komið á fárra hendur. Í því felst ógnun og ég held að það sé ekki góð staða. Okkur vantar stefnu og áætlun og okkur vantar almennt áætlun um landnýtingu, áætlun um í hvað við ætlum að nota landið okkar. Líkt og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir kom inn á er allt land auðlind. Ekki eru bara hefðbundnu bújarðirnar auðlind heldur allt land. Við nýtum það á mismunandi hátt. Á sumum stöðum viljum við hafa búsetu út af öryggissjónarmiðum, á einhverjum stöðum ætlum við að byggja upp ferðamennsku sem byggir á landinu og nýtingunni á því o.s.frv. Við þurfum að skipuleggja þetta. Það held ég að sé orðið mjög aðkallandi mál.

Í þessu plaggi hefur líka verið sett fram að við förum eftir íslensku reglunni og íslenska reglan er að eign á landi jafngildi eign á auðlindum í jörðu. Eignarréttur hérna er mjög afgerandi og hann hefur í för með sér yfirgripsmikinn eignarrétt á auðlindum. Þarna greinir fólk eflaust á um hvernig við viljum hafa nálgunina á því. Þetta þarf allt að ræða og við þurfum að komast að niðurstöðu um það. Eignarréttur á yfirborðsvatni jafnt sem grunnvatni er okkur gríðarlega dýrmætur og til framtíðar get ég tekið undir það sem stendur hér, að það sé eitt mesta hagsmunamál komandi kynslóða hérlendis.

Það er gríðarlega mikilvægt að við nýtum landið okkar og að við nýtum það vel, af skynsemi og raunsæi. Þess vegna langar mig að vekja athygli á nokkrum málum sem við Framsóknarmenn og fleiri höfum lagt fram. Ítrekað hef ég lagt fram mál sem fjallar um mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða. Ég veit að núna er vinna í fjármálaráðuneytinu og einhver hreyfing hefur komist á það en það hefur bara ekki gengið nógu hratt og örugglega. Fólk hefur verið tilbúið að taka við bújörðum, hefja búskap en ekki komist á jarðirnar af því að ekki hefur verið opnað á það. Einhver hreyfing hefur þó orðið á því og vil ég halda því til haga. Í tillögu minni er fjármálaráðherra falið að fjalla sérstaklega um bújarðir í almennri stefnu um eignir og réttindi í eigu ríkisins og vona ég að það sé að koma fram hjá honum. Þar verði litið til ábúðar, náttúruverndar, ferðaþjónustu og möguleika fólks til að hefja búskap.

Ég gríp orðrétt niður í tillögu okkar Framsóknarmanna, með leyfi forseta:

„Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu. Síðasta áratug hafa orðið miklar breytingar á landnotkun í dreifbýli en sú breyting sem hefur hvað víðtækust áhrif er mannfjöldi sem ræðst að verulegu leyti af atvinnumöguleikum fólks.“

Eignarhald ríkisins á bújörðum er hluti af málinu en sú sem stendur hér hefur litið þannig á að ríkið geti gengið á undan með góðu fordæmi og gert þetta. Við hefðum getað farið svo miklu fyrr og miklu hraðar í það mál en gert hefur verið. Núna eru í gildi 122 ábúðarsamningar hjá Ríkiseignum með bújarðir en ég bind vonir við að það mál sé í góðu ferli. Ég vonast til að atvinnuveganefnd fái fljótlega upplýsingar um hvernig það stendur af því að þetta mál er þar til umfjöllunar.

Eins og ég nefndi áðan felst landnýting ekki eingöngu í hefðbundnum búskap heldur svo mörgu öðru.

Svo er tillaga til þingsályktunar um vistvæn opinber innkaup á matvöru sem styður okkur sem höfum verið að tala um matvælalandið Ísland. Hér eigum við að framleiða miklu meira af matvælum og það fellur að öllum okkar markmiðum þegar kemur að því að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, styrkja íslenskan landbúnað, auka atvinnutækifæri og stuðla að bættu umhverfi, velferð dýra og draga úr flutningi og kostnaði við hann. Þetta fellur allt saman.

Svo er ein tillaga enn sem fjallar um uppgræðslu lands og ræktun túna. Landið er allt dýrmætt og við stöndum frammi fyrir því að fjöldi túna er að fara í órækt. Það eru verðmæti og mikil auðlind falin í því sem við megum ekki láta falla niður. Með því að viðhalda þeirri eign og því dýrmæti sem í því felst getum við um leið ræktað upp landið. Ég vona að þetta komi allt til þingsins.

Af hverju er ég að tala um þetta núna? Af því að þetta fellur allt að því hvernig við ætlum að nýta landið og horfa til framtíðar í þessum efnum. Ég fagna því að þetta mál sé komið hingað inn til umfjöllunar og ég vona að það fái góðan framgang og góða umfjöllun. Raunar lét formaður atvinnuveganefndar, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, þau orð falla að hún ætlaði að fylgja þessu eftir og treysti ég henni fullkomlega til að koma að þessu áfram. Stjórnvöld geta beitt ýmsum tækjum til að hafa áhrif á ráðstöfun lands.

Líkt og hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir fór yfir áðan er komin fram skýrsla með átta tillögum að leiðum til að fylgja málinu eftir og ná tökum á þessum málum en ég held að við þurfum að ná sátt um þetta. Við þurfum að ræða enn betur um það þó að ég haldi að flestir, a.m.k. þeir sem sitja hér undir þessari umræðu, séu alveg á því að við ætlum að nýta landið, að við ætlum að ganga vel um það og halda landinu okkar í byggð. Þess vegna þurfum við að ná utan um þessi mál og við skulum ekki gleyma því að mikil verðmæti felast líka í þekkingu á landinu, fólkinu sem hefur verið að yrkja landið og býr um allt land. Það þekkir landið og veit hvernig á að nota það. Ég vona virkilega að þetta mál fái góðan framgang hér í þinginu.