149. löggjafarþing — 70. fundur,  26. feb. 2019.

samningar við sérgreinalækna og sjúkraþjálfara.

[14:15]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég er sammála hv. þingmanni og við erum líka sammála sérgreinalæknum um að það er mikilvægt að ljúka samningum. Samtöl standa yfir og það er sameiginlegt markmið aðila að komast að niðurstöðu í því. Ég er bjartsýn hvað það varðar en það tekur auðvitað tíma. Um er að ræða að staða einstakra sérgreina gæti verið mismunandi. Það gildir ekki eitt fyrir alla og við þurfum að hafa þolinmæði gagnvart því að ljúka því.

Varðandi samninga við sjúkraþjálfara eru samningsmarkmiðin enn þá í samtali milli ráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands og þar var samningurinn framlengdur. Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir, að við höfum í raun og veru ekki enn þá almennilega botnað að hve miklu leyti þjálfun kemur í staðinn fyrir aðra meðferð, m.a. þegar við tölum um lyf sem valdið geta fíkn. Þá höfum við verið að benda á mikilvægi þess að hafa úr fleiri úrræðum að spila þegar um er að ræða langvarandi verki til að mynda. Þar er sjúkraþjálfun sannarlega eitt af því sem þar getur komið inn í. Það er eitt af þeim sjónarmiðum sem verða þar við borðið.